Dularfull TikTok-stjarna birtir myndbönd frá Íslandi

Ferðabloggarinn Joshua Platillero hefur slegið rækilega í gegn á TikTok.
Ferðabloggarinn Joshua Platillero hefur slegið rækilega í gegn á TikTok. Samsett mynd

Ferðabloggarinn Joshua Platillero hefur tekið yfir TikTok á undanförnum vikum með ótrúlegum myndskeiðum sem hann birtir undir notendanafninu Megaamerican, þar á meðal eru myndskeið sem tekin eru upp á Íslandi.

Platillero birtir ferðamyndskeið á miðli sínum, en hann er með sérstakan stíl á myndböndunum sem virðist ná til fólks. Í byrjun myndbandsins sést hann stara fram af undrun, en í kjölfarið snýst myndavélin og sýnir áhorfendum magnað útsýni í frábærum myndgæðum. 

Algengt er að ferðabloggarar fjalli nánar um hvern og einn áfangastað, en mörgum hefur þótt dularfullt hve hratt Platillero virðist ferðast heimshornanna á milli. Þar að auki merkir hann ekki áfangastaði inn á myndskeiðin sem vekur mikla forvitni áhorfenda. 

„Þessi gæi er að ferðast til allra landa í heiminum á 24 klukkustundum,“ skrifaði einn TikTok-notandi á síðu Platillero á meðan annar skrifaði: „Ég sé hann meira en fjölskyldu mína.“ Þá skrifaði enn annar: „Ég sver að þessi gæi ferðast með fjarflutningi (e. teleporting).“

Miðlar Platillero hafa stækkað hratt á undanförnum vikum, en hann er nú með yfir tíu milljónir fylgjenda þvert á miðla sína. Þá hafa myndbönd hans á TikTok fengið yfir 550 milljón „likes“.

Platillero birti á dögunum þó nokkur myndskeið frá ferðalagi sínu um Ísland, en myndböndin hafa vakið mikla lukku á miðlinum. Hann birti meðal annars myndskeið af sér við Reynisfjöru, Seljalandsfoss og Stokksnes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert