Skemmtanalíf margra landa, þar á meðal Íslands, tók þó nokkrum breytingum eftir að heimsfaraldurinn reið yfir heiminn árið 2020. Það virðist þó vera misjafnt hvernig næturlífið stendur á milli landa, en hvaða borgir ætli bjóða upp á besta skemmtanalífið um þessar mundir?
Ferðavefur TimeOut tók saman lista yfir þær borgir sem þykja bjóða upp á sérstaklega spennandi næturlíf, en þau hafa kannað upplifun á næturlífi hjá þúsundum manna og safnað saman þeim borgum sem skora hæst.
1. Ríó
Það kemur líklega fáum á óvart að Ríó í Brasilíu prýði listann, enda er þar haldin ein stærsta hátíð heims, Ríó-karnivalið. Næturlíf í Ríó fékk 90% í gæðaeinkunn og heimamenn gáfu henni einnig góða einkunn fyrir að vera með hagstætt verð.
2. Manila
Í öðru sæti er Manila á Filippseyjum, en könnunin leiddi í ljós að hún var ódýrasta borgin á listanum með hagstæðasta verðið. Þá fékk næturlífið í borginni 78% í gæðaeinkunn og var borginni lýst sem fallegri, bjartri og lifandi af heimamönnum.
3. Berlín
Berlín í Þýskalandi er þekkt fyrir fjörugt og fjölbreytt næturlíf með goðsagnakenndum teknóklúbbum. Það kemur því eflaust engum á óvart að borgin sé í þriðja sæti á listanum, en hún fékk 82% í gæðaeinkunn og 48% fyrir hagstætt verð.
4. Guadalajara
Í Jalisco-héraði í Mexíkó er Guadalajara sem situr í fjórða sæti listans. Næturlífið fékk hæstu gæðaeinkunnina á listanum, eða 92%, en það var hins vegar lág prósenta fyrir hagstætt verð, eða 28%, sem dró borgina niður í fjórða sætið.
5. Austin
Austin í Texas-ríki býður upp á besta næturlífið í Bandaríkjunum öllum samkvæmt könnuninni. Borgin er sannkölluð tónlistarparadís og fékk næturlífið þar þriðju hæstu gæðaeinkunnina í könnuninni.