Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á áætlunarferðum til Valencia næsta sumar. Fyrsta flugið verður 24. maí 2025 og verður flogið á þriðjudögum og laugardögum fram til 29. september.
Valencia verður níundi áfangastaður Play á Spáni en fyrir flýgur félagið til Alicante, Barcelona, Madríd og Malaga á meginlandi Spánar, og svo til spænsku eyjanna Mallorca, Fuerteventura, Gran Canaria og Tenerife.
Borgin státar af undurfögrum arkitektúr sem er auðséð á dómkirkju borgarinnar og hinu heimsfræga Lista- og vísindasafni. Matarmenningin er stórfengleg og þá eru fallegar strendur ekki langt undan. Skemmtana þyrstir munu síðan finna eitthvað fyrir sinn snúð í Ruzafa-hverfinu.
„Þá er níundi áfangastaðurinn okkar á Spáni kominn í sölu og við sjáum fyrir mikinn áhuga á Valencia á næsta ári. Við viljum bjóða Íslendingum upp á öfluga áætlun til sólarlandaáfangastaða og Valencia mun án efa heilla þá sem sækja borgina heim. Einnig finnum við fyrir áhuga Spánverja á að nýta þjónustu okkar til Íslands þar sem farþegar geta nýtt sér að dvelja á okkar fagra landi í allt að tíu daga áður en þeir halda för sinni áfram innan leiðakerfis okkar,” segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
Valencia er fjórði nýi áfangastaðurinn sem Play kynnir til sögunnar á jafnmörgum vikum. Miðasala er þegar hafin fyrir áætlunarferðir til Álaborgar í Danmörku, Faro í Portúgal og Pula í Króatíu á næsta ári en þar að auki hefur Play ákveðið að fjölga ferðum til Split í Króatíu.