Aukið sólarlandaframboð hjá Icelandair

Icelandair.
Icelandair. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Icelandair hefur ákveðið að framlengja flugtímabil til Orlando og Lissabon fram yfir sumarið á næsta ári og mun því fljúga til þessara áfangastaða árið um kring.

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu, að Icelandair muni hefja flug til Lissabon í fyrsta sinn þann 11. október. Til stóð að fljúga út mars.

„Nú hefur verið ákveðið að framlengja flugið og er það til marks um trú félagsins á flugleiðinni að ákvörðunin er tekin áður en flug til áfangastaðarins hefst. Icelandair undirritaði nýverið viljayfirlýsingu um samstarf við portúgalska flugfélagið TAP og með beinni tengingu á milli Lissabon og Íslands munu opnast öflugar tengingar á milli leiðakerfa flugfélaganna tveggja. Orlando í Flórída hefur um árabil verið vinsæll áfangastaður yfir vetrartímann en félagið hefur fundið fyrir aukinni eftirspurn viðskiptavina um að bæta einnig við flugi yfir sumartímann,“ segir í tilkynningunni. 

Morgunflug til Nice

Þá segir að boðið verði upp á morgunflug til Nice í Frakklandi. Tekið er fram að með morgunflugi geti farþegar á leið til Nice komist fyrr á áfangastað auk þess sem betri tengingar skapist við Norður-Ameríkuflug Icelandair.

„Þannig verður mun þægilegra fyrir viðskiptavini í Bandaríkjunum og Kanada að ferðast til Nice og sömuleiðis fyrir íbúa Frönsku Rívíerunnar að ferðast vestur um haf. Til viðbótar við þessar breytingar hefur verið ákveðið að hefja flug til Pittsburgh í Bandaríkjunum mánuði fyrr en fyrirhugað var, eða um miðjan apríl 2025,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert