„Sikiley á mikið inni sem ferðamannastaður“

Leikhús í rómverskum stíl í bænum Taormína.
Leikhús í rómverskum stíl í bænum Taormína. mbl.is/Sigurður Bogi

„Sikiley á mikið inni sem ferðamannastaður. Þarna er fjölbreytt náttúra, sólríkt, veðráttan þægileg og innviðir á svæðinu verða æ sterkari. Einnig margir sögustaðir frá tímum Grikkja, Rómverja og Araba; menningarminjar sem vert er að skoða og gera ferð um eyjuna eftirminnilega,“ segir Hólmfríður Bjarnadóttir.

Í leiðangri á vegum Bændaferða var Hófí, eins og hún er jafnan kölluð, fararstjóri þegar flogið var til Rómar og svo farið með rútu suður á bóginn. Eftir nætursiglingu frá Napólí á Ítalíu var komið til Palermo á Sikiley; borgar þar sem stefnur og straumar mætast í litríku lífi og marglaga menningu sem mótast hefur á mörgum öldum.

Upplifa og fræðast

Á þeim dögum sem svo fóru í hönd var farið víða um Sikiley. Þar má nefna Vall di Templi, Dal hofanna sem svo er kallaður. Þetta er einn af stærstu fornminjastöðum heimsins, en þarna var nýlenda sem Grikkir stofnuðu sex öldum fyrir Krist og varð ein af leiðandi borgum við Miðjarðarhaf. Á þessum stað er allt stórt í brotinu, eins og gerist víða annars staðar á Sikiley.

Í Sikileyjarferðinni sem hér segir frá var viðstaða í Giardini Naxos. Þar nærri, í klettum hárra fjalla, er bærinn Taormína; þekktur meðal Íslendinga fyrir að þar dvaldist Halldór Laxness fyrir tæpri öld þegar hann skrifaði Vefarann mikla frá Kasmír, þá frægu skáldsögu. Úr þessum bæ, frá rústum leikhúss Rómverja, sést vel yfir Messíanasundið til meginlands Ítalíu sem er aðeins fáeina kílómetra frá. Þarna nærri er eldfjallið Etna; 3.357 metra hátt. Er keilulaga og þannig ekki ólíkt til dæmis Heklu og Eldfelli, svo íslensk dæmi séu nefnd. Þetta er líka eitt af virkustu eldfjöllum heims og eldsumbrot þar eru nánast stöðug. Síðast gaus nú í júlí í Etnu, fjallinu sem er á heimsminjaskrá UNESCO, eins og margir fleiri staðir á Sikiley.

Ferðafærni Íslendinga verður sífellt meiri og tungumálakunnátta betri. Margir fara því um heiminn á eigin vegum, sem hefur þó ekki nema síður sé dregið úr áhuga fólks á skipulögðum ferðum með leiðsögn.

„Farþegar með Bændaferðum eru í vaxandi mæli fólk á miðjum aldri sem vill í utanlandsferðum sínum fara víða um; sjá, upplifa og fræðast. Mér finnst áhugavert að skipuleggja slíkar ferðir, sem kallar á að vera áður búin að kynnast vel aðstæðum og landi,“ segir Hófí. „Ég stýri fjölbreyttum ferðum og reyni líka að brydda upp á einhverju nýju; koma með spennandi áfangstaði. Og sama hvert leiðin liggur þá hlakka ég til sérhverrar ferðar, en þær skipulegg ég eins og reynsla og tilfinningin segja mér að farþegarnir vilji hafa hlutina.“

Fararstjóri í 40 ár

Tæp 40 ár eru síðan Hófí byrjaði sem fararstjóri hjá Bændaferðum, þá í félagi við Agnar heitinn Guðnason, þá tengdaföður sinn. Fólk úr sveitum landsins var þá gjarnan farþegahópurinn þegar ferðast var um Skandinavíu, Bretlandseyjar og norðurhluta Evrópu. Í fyllingu tímans komu svo inn ferðir um Ítalíu, Spán, og víðar.

„Ítalía hefur upp á margt að bjóða; þar eru áhugaverðir staðir eins og perlur á bandi. Flórens, Gardavatnið, Feneyjar, Róm, Caprí, Sardinía og Amalfíströndin. Af nægu er að taka. Af öðrum löndum í Evrópu þá hefur Króatía verið að koma sterk inn sem áfangastaður ferðamanna og þangað gera Bændaferðir út í vaxandi mæli,“ segir Hófí sem frá 2007 hefur verið búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi. Sambýlismaður hennar er Norberg Birnböck, sem í áratugi hefur verið rútubílstjóri í Evróputúrum Bændaferða. Ekur þar á rauðri rútu og kemst alltaf í áfangastað.

Byggingar í Palermo eru margar glæsilegar og arkitektúrnum fylgja áhrif …
Byggingar í Palermo eru margar glæsilegar og arkitektúrnum fylgja áhrif víða frá. mbl.is/Sigurður Bogi
Hólmfríður Bjarnadóttir fararstjóri til frásagnar. Eitthvað spennandi og fólkið fylgist …
Hólmfríður Bjarnadóttir fararstjóri til frásagnar. Eitthvað spennandi og fólkið fylgist með af áhuga. mbl.is/Sigurður Bogi
Góður hópur og glatt á hjalla.
Góður hópur og glatt á hjalla. mbl.is/Sigurður Bogi
Sungið og leikið á strætunum.
Sungið og leikið á strætunum. mbl.is/Sigurður Bogi
Sungið og leikið fyrir ferðafólk sem tylli sér niður á …
Sungið og leikið fyrir ferðafólk sem tylli sér niður á götukaffihúsi í Palermo. mbl.is/Sigurður Bogi
Palermo. Horft yfir hafnarsvæðið.
Palermo. Horft yfir hafnarsvæðið. mbl.is/Sigurður Bogi
Hellt í sítónukokteil.
Hellt í sítónukokteil. mbl.is/Sigurður Bogi
Lifið á strætunum.
Lifið á strætunum. mbl.is/Sigurður Bogi
Hólmfríður Bjarnadóttir og Norberg Birnböck, eiginmaður hennar. Þau hafa starfað …
Hólmfríður Bjarnadóttir og Norberg Birnböck, eiginmaður hennar. Þau hafa starfað fyrir Bændaferðir í áratugi og þúsundir Íslendinga ferðast með þeim. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert