Flugfélagið Play flaug sína fyrstu ferð til Afríku í gær. Ferðinni var heitið til Marrakesh og fengu gestir vélarinnar góðar móttökur við lendingu í afrísku borginni. Tekið var á móti fólki með tommuslætti og tónlist.
Viðburður var haldinn á Keflavíkurflugvelli fyrir brottför þar sem Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, og Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, ávörpuðu gesti í tilefni dagsins.
Flogið er tvisvar í viku til Marrakesh, á fimmtudögum og sunnudögum, og er flugið um fimm klukkustundir.
Marrakesh er töfrandi borg þar sem gamli tíminn og nútíminn mætast. Þar geta ferðalangar auðveldlega gleymt sér á lifandi mörkuðum, eða innan um stórfenglega byggingarlist. Marrakesh er ein fjögurra keisaraborga Marokkó og höfuðborg Marrakesh-Safi svæðisins.
Þessi stórbrotna borg er staðsett við rætur hinna frægu Atlasfjalla. Borgin er oft kölluð rauða borgin vegna rauðs sandsteins sem áður fyrr var notaður sem byggingarefni og setur enn svip sinn á Marrakesh. Með tímanum hefur borgin vaxið og orðið að sannkallaðri menningar-, trúar- og viðskiptamiðstöð Marokkó.