Þótt flugfélög séu alla jafna ekki með ákveðnar reglur um klæðaburð þá eru samt óskrifaðar reglur um hverju á að klæðast eða öllu heldur ekki klæðast í flugi.
Á leiðinni til eða frá sólarlöndum gæti orðið freistandi að leyfa tánum að anda með því að klæðast sandölum í flugvélinni. Það gæti þó verið varasamt því samkvæmt ferðasérfræðingum eru teppin sjaldan þrifin og fáséð að starfsmenn skríði á fjórum fótum til að þrífa undir sætunum.
Bleytan inni á salerni flugvélarinnar er ekki endilega bara vatn sem skvest hefur á gólfið.
Hér er verið að ræða smáa letrið. Flest flugfélög áskilja sér rétt til að neita farþegum í óviðeigandi klæðnaði að ganga um borð. Þá gætu ferðalangar verið beðnir um að skipta um föt ellegar eiga von á að vera vísað úr vélinni, þó að sjálfsögðu ekki þegar hún er á flugi.
Þessi tegund klæðnaðar ber nafnið „náttföt“ af ástæðu. Þeim er ætlað til svefns eða til rólegheita heima við. Þetta er ekki fatnaður sem á að klæðast á almannafæri. Bara alls ekki.
Það er alveg hægt að klæðast einhverju öðru þægilegu en náttfötum.
Hawaiian Airlines er eitt fárra flugfélaga sem birtir reglur er varða klæðaburð, en um borð í vélum félagsins er stranglega bannað að klæðast sundfatnaði.
Finni ferðalangar mikla þörf hjá sér til að klæðast sundfötum er ágætt að vera í þeim innan undir öðrum fatnaði.
Það er aldrei hægt að spá fyrir um hvernig hitastigið inni í vélinni er. Þess vegna er gott að vera í nokkrum lögum, t.d. bol og peysu svo hægt sé að afklæðast verði of heitt. Eða hafa með sér jakka sem hægt er að skella sér í sæki kuldinn að.
Ferðalöngum er bent á að pakka stórum málmskartgripum niður í handfarangur því það er líklegra en ekki að þurfa að fjarlægja þá við öryggisleitina, sem er ekki vesensins virði.
Ferðalöngum er bent á að vera góðir við samfarþega sína og varast að bera sterkt ilmvatn. Fólk er einfaldlega misviðkvæmt fyrir lykt og í lokuðu rými, eins og í flugvél, getur ilmvatnið orðið enn meira yfirþyrmandi en annars.