„Ég er með tattú sem eru útlínur af Bláfjöllum“

Ein færasta snjóbrettakona íslendinga, Vildís Edwinsdóttir, er 23 ára og …
Ein færasta snjóbrettakona íslendinga, Vildís Edwinsdóttir, er 23 ára og búsett í skíðabænum Åre í Svíþjóð. Vildís er stödd í fjallinu þegar blaðamaður hringir, sem hægt er að segja að sé hennar annað heimili. Ljósmynd/Aðsend

Ein færasta snjóbrettakona Íslendinga, Vildís Edwinsdóttir, er 23 ára og búsett í Åre í Svíþjóð. Þegar viðtalið er tekið er Vildís stödd í fjallinu sem hægt er að segja að sé hennar annað heimili. 

„Ég flutti út til að elta drauminn, að geta rennt mér á bretti á hverjum einasta degi,“ segir hin íslenska Vildís þegar hún er spurð um af hverju hún sé búsett í Svíþjóð.  

Vildís Edwinsdóttir er búsett í Åre ásamt kærasta sínum, Gustaf …
Vildís Edwinsdóttir er búsett í Åre ásamt kærasta sínum, Gustaf Rönning. Ljósmynd/Aðsend

Vildís, sem ólst upp í Garðabæ, ákvað að flytja til Svíþjóðar aðeins 17 ára gömul og fara í sænskan framhaldsskóla. Gulrótin var sú að geta verið í fjallinu á hverjum degi. Hún flutti fyrst þangað sem bróðir hennar var búsettur, í lítinn skólabæ Vännäs í Västerbotten. Síðar fluttu þau bæði til Åre.

Þar býr hún núna ásamt sænskum kærasta sínum, Gustaf Rönning, og deila þau ástríðunni að renna sér í fjallinu og leika þar ýmsar kúnstir, hún á snjóbretti en hann á skíðum.

„Þótt ég fari ein í fjallið mun ég alltaf hitta …
„Þótt ég fari ein í fjallið mun ég alltaf hitta einhvern til að renna mér með.“ Ljósmynd/Aðsend

Besti staðurinn

„Þetta er besti staðurinn til að búa á og get ég ekki ímyndað mér neitt annað í augnablikinu,“ segir Vildís glaðlega. Åre er lítill skíðabær í norðri, alveg á landamærum Noregs. 

„Hann lítur út eins og bæirnir í ölpunum,“ segir Vildís og bætir við að skíðasvæðið við bæinn sé eitt það stærsta í Svíþjóð.  

„Það eru ekkert margir sem búa hérna, enda frekar lítill bær, en á veturna er mikið um ferðamenn og fólk sem kemur hingað til að fara á skíði. Helst Norðmenn og Svíar, margir hverjir frá Stokkhólmi.“ 

Vildís segir samfélagið í bænum vera þétt og mælir með að forvitnir heimsæki bæinn til að finna hve góður staður þetta er. „Þótt ég fari ein í fjallið mun ég alltaf hitta einhvern til að renna mér með.“

Þeir eru ófáir titlarnir sem Vildís hefur unnið en hún …
Þeir eru ófáir titlarnir sem Vildís hefur unnið en hún vinnur nú í að safna stigum til að komast á Ólympíuleikana. Ljósmynd/Aðsend

Margsinnis unnið erlendar og innlendar keppnir

Vildís kláraði stúdentsprófið og hefur einnig lokið einkaþjálfun og næringarráðgjöf. Í dag starfar hún í lítilli ferðamannaverslun í bænum. „Þegar ég hef tíma,“ bætir hún við en stór hluti af deginum fer í að renna sér í fjallinu og æfa. 

Hún hefur unnið nokkra Íslandsmeistaratitla og svenska mästerskapet, sem er á pari við Íslandsmeistaramót. Auk þess hefur Vildís sigrað fjöldann allan af smærri keppnum og tekið þátt í Evrópumótum.

„Nú er ég að vinna í þessum stærri keppnum.“ Draumurinn er að komast á heimsmeistaramót og hún vinnur ötullega í að safna stigum til að geta tekið þátt í Ólympíuleikunum. 

Draumurinn er að komast einhvern tímann á heimsmeistaramót.
Draumurinn er að komast einhvern tímann á heimsmeistaramót. Ljósmynd/Aðsend

Bróðirinn átti þátt í ástríðunni

Þá er forvitnilegt að vita hvernig ung kona eins og Vildís, sem er í dag styrkt af fyrirtækjum eins og Nocco Ísland, Bataleon Snowboards, sænska fatamerkinu Eivy og snjóbrettavörumerkinu Appertiff, hafi byrjað ævintýrið.

„Þegar ég var 13 ára sagði bróðir minn að ég væri ekki nógu svöl á skíðum og að ég ætti að prófa snjóbretti. Hann fór með mig í litla brekku í Garðabænum og lét mig labba upp og renna niður þar til ég hafði náð ágætis tökum á brettinu.“

Við 15 ára aldurinn byrjaði Vildís að æfa hjá Brettafélagi Hafnarfjarðar og þá segist hún fyrst hafa orðið ástfangin af sportinu. 

Horft á brekkuna og íhugað hvað skuli gera næst.
Horft á brekkuna og íhugað hvað skuli gera næst. Ljósmynd/Aðsend

„Ef einhvern dreymir um að verða góður á snjóbretti þá mæli ég allan daginn með Brettafélagi Hafnarfjarðar. Þau eru bara svo æðisleg. Þjálfararnir eru frábærir og þetta er yndislegt samfélag.“

Vildís segist einnig vera afar þakklát aðstoðinni sem hún fær frá Skíðasambandi Íslands sem styrkir hana til að taka þátt í keppnum. 

Stund milli stríða.
Stund milli stríða. Ljósmynd/Aðsend

Ylfa Rúnars best

Hver er kvenfyrirmyndin?

„Ylfa Rúnarsdóttir,“ svarar hún um hæl. „Ég myndi segja að hún sé besta snjóbrettakona Íslands. Hún býr til brettamyndir og er street rider sem þýðir að hún rennur sér inni í bæjum, niður tröppur, af húsþökum, handriðum o.fl.“ 

Aðspurð segir Vildís að bestu brekkurnar hérlendis séu einfaldlega í Bláfjöllum og að svæðið muni alltaf eiga góðan stað í hjarta hennar. „Ég er með tattú sem eru útlínur af Bláfjöllum.“

Hvað varðar skíðasvæði erlendis segist Vildís myndi velja Åre fram yfir Alpana.  

Að fara á snjóbretti er ekki tískusýning, sjálf líkir Vildís …
Að fara á snjóbretti er ekki tískusýning, sjálf líkir Vildís sér við svartan ruslapoka sem rennir sér í fjallinu. Best þykir henni að vera í einhverju víðu því það heftir ekki hreyfingarnar. Ljósmynd/Aðsend

Hvað má og hvað má ekki

Hvernig á að hegða sér og klæða sig í fjallinu?

„Svo lengi sem þú styður við alla á sama tíma og þú styður sjálfan þig, ertu í góðum málum.“ Lykilatriði sé að vera kurteis og hjálpa öðrum. Skíðaiðkendur megi skilja hrokann eftir heima.

„Í fjallinu ertu þar til að leika þér svo ekki taka þetta of alvarlega.“ 

Varðandi klæðnaðinn mælir Vildís með að fólk klæði sig vel því það er alltaf kalt í fjallinu. Að öðru leyti segir hún að fólk eigi ekki að elta tískuna heldur klæðast því sem það fílar sjálft.

„Ef sjálfstraustið er gott þá ertu flott í öllu. Ég er sjálf alltaf í víðum fötum og lít smá út eins og svartur ruslapoki þegar ég renni mér,“ segir Vildís og hlær. „En ég fíla það,“ bætir hún við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert