Þetta er kannski ekki mest spennandi staður til að gista á í Kólumbíu enda ekki í boði sem náttstaður, í augnablikinu. Del Salto-hótelið, eða hótel stökksins, er núna safn sem stendur fram á klettabrún yfir ánni Bogotá.
Í áratugi hefur því verið haldið fram að reimt sé í hótelinu og það af ástæðu.
Sagan segir að Muisca-frumbyggjar hafi stokkið fram af nærliggjandi Tequendama-fossum til að forðast spænska nýlenduherra í byrjun 16. aldar.
Húsnæðið var upphaflega reist árið 1923 og var híbýli arkitektsins Carlos Arturo Tapias. Þar voru þar haldnar ótal glæsilegar veislur.
Árið 1928 var reist viðbygging við húsnæðið og því breytt í hótel. Í kjölfar kreppunnar miklu á þriðja og fjórða áratugnum lokaði hótelið hins vegar.
Rétt handan við veggi hótelsins eru margir sagðir hafa látið sig falla niður í fossinn, af örvæntingunni einni saman eða fyrir tilstuðlan goðsagnarinnar um Muisca-frumbyggjanna.
Áform voru uppi árið 1950 um að endurvekja hótelið en hætt var fljótlega við þau þegar í ljós kom hve miklar skemmdir voru á grunni hússins.
Fara margar sögusagnir af reimleika hótelsins, fyrir utan dauðsföllin sem þar hafa orðið. Þegar húsnæðið stóð autt var sagt að þaðan heyrðust öskur um miðjar nætur.
Þá hafa tíðum fallið aurskriður í námunda við hótelið og nærliggjandi vegir verið vettvangur slysa. Sumir segja að Muisca-frumbyggjarnir hafi lagt bölvun yfir svæðið sem hótelið er byggt á.
Árið 2011 var starfsemi þar tekin upp að nýju og hótelinu breytt í safn og allsherjar menningarmiðstöð.
Nú orðið laðar safnið að ferðamenn víðs vegar að úr heiminum og munu meint yfirnáttúrleg atvik sem áttu sér stað á hótelinu líklega halda áfram að lokka gesti um ókomin ár.