Margir eiga sér þá hefð fyrir jólin að fara í stutta borgarferð, koma sér í jólaskapið, versla jólagjafir og heimsækja jólamarkaði. Jól, jól og jól. En hvar eru bestu jólamarkaðirnir sem koma fólki í alvöru jólaskap?
Köln í Þýskalandi er uppáhaldsborg margra fyrir jólin en þar í borg má finna nokkra jólamarkaði. Stærsti þeirra er í miðborginni rétt við dómkirkjuna. Á Markt der Engel upplifirðu sanna töfra þar sem hundruð ljósa skína fyrir ofan þig sem stjörnur. Ef þú vilt jóla yfir þig þá þræðirðu alla jólamarkaðina í borginni.
Jólamarkaðirnir í Berlín í Þýskalandi eru aðeins nútímalegri. Það eru yfir áttatíu markaðir í borginni, einn meira að segja aðallega fyrir hunda, svo það er í raun ógerningur að komast yfir þá alla. Spandau er sá stærsti og Weihnachtszauber er sá fallegasti. Ef þú vilt ná púlsinum upp þá er ráð að heimsækja Winter World á Potsdamer Platz. Þar er minna hægt að versla en meira um skemmtileg vetrarsport eins og krullu eða skauta.
Búdapest í Ungverjalandi er fyrir þá sem eru mikið fyrir jólaljós og skauta. Vorosmarty Square er í hjarta borgarinnar og er elsti markaðurinn í borginni. Þar finnurðu mikið af mat, tónlist og handgerðum hlutum. Á Basilica-markaðinum geturðu skautað í kringum jólatré.
Í Prag í Tékklandi sérðu mikla fegurð og borgin er fullkomin á þessum árstíma að mati margra. Maturinn er aðalatriðið, heitar og feitar nýgrillaðar pylsur, pönnukökur, hvítlauks- og ostaflatbrauð og jólaglögg. Jólalyktin er í loftinu og ef þú ert að ferðast með börn þá er ráð að heimsækja gamla torgið. Þar finnurðu kindur, geitur og asna sem bíða eftir athygli.
Gautaborg í Svíþjóð er þekkt fyrir góða jólaglögg og fallega hluti fyrir tískuunnendur. Liseberg, einn stærsti skemmtigarðurinn í Svíþjóð, breytist í fallegan jólamarkað. Þar geturðu smakkað reykt hreindýr og jólaglögg. Ýmislegt frítt er í boði fyrir börnin.
Vín í Austurríki glitrar yfir jólatímann. Jólin liggja í loftinu yfir borginni, jólamarkaðirnir eru margir og kaffihúsin einstaklega hlýleg. Í gamla bænum má finna marga fallega jólamarkaði þar sem handgerð viðarleikföng og handgerðar sápur eru áberandi. Ekki gleyma að fá þér dýrindis pretzel og jólaglögg.
Það er vinsælt á meðal Íslendinga að heimsækja Kaupmannahöfn í Danmörku fyrir jólin. Þá verður að heimsækja tívolíið og Nýhöfn. Svo auðvitað að fá sér ekta smørrebrød.
Edinborg í Skotlandi er annað uppáhald Íslendinga fyrir jólin enda ein af fallegustu borgum í heimi. Þar finnurðu skautasvell, jólalegar hringekjur, vinnustofu álfanna og handgerð viðarleikföng. Þegar það er orðið dimmt er fullkomið að fá sér kryddaðan jóladrykk og gleyma sér í jólaljósunum.