Poveglia er eyja staðsett á suðurhluta Feneyja. Margar vangaveltur og goðsagnir hafa verið viðloðandi eyjuna í áraraðir. Eyjan er yfirgefin og mannvirkin hafa að geyma dularfulla sögu.
Saga Poveglia hefst á fyrri hluta 6. aldar þegar fyrstu íbúarnir hófu búskap þar eftir að hafa lagt á flótta frá heimkynnum sínum. Í fjölda ára lifði fólk á eyjunni í sátt og samlyndi. Með tímanum jókst mannfjöldinn og viðskipti blómstruðu.
Á 14. öld varð lýðfræðileg hnignun í kjölfar Chioggia-stríðsins sem leiddi til brottflutnings íbúanna til Feneyja. Það var ekki fyrr en aftur á 18. öld að menn sáu fyrir sér notagildi eyjunnar.
Í fyrstu varð hún eins konar geymslustöð en síðar var mannvirkjunum breytt í heilbrigðisskyni og varð eyjan eins konar sóttvarnarstöð þar sem plágusjúklingar voru hýstir. Á 19. öld var tekið upp á að hýsa þar einnig geðsjúklinga og aldraða.
Eftir að byggingarnar fóru smám saman í niðurníðslu hefur reglulega verið reynt að vinna að endurreisnarverkefnum á eyjunni. Þau hafa hins vegar aldrei komið til framkvæmda.
Árið 1997 voru uppi áætlanir um að byggja þar farfuglaheimili og gera þar ferðamiðstöð stúdenta. Einhverra hluta vegna varð verkefnið aldrei að veruleika.
Árið 1999 var eyjan seld ítalska ríkinu eftir dágóðan tíma í eigu einkaaðila. Á löngu tímabili hefur ríkið reynt að losa sig við eignina en eyjan hefur aldrei fengið nýjan eiganda.
Margar hryllingssögur eru sagðar um eyjuna og hafa ýmsir draugaveiðarar heimsótt hana. Sagt er að í kjölfar svartadauða, um miðja 14. öld, hafi þúsundir manna verið brenndir til að koma í veg fyrir smit og að líkin séu grafin á eyjunni.
Orðið á götunni er að 50% af jarðvegi eyjunnar sé aska af mannfólki.
Önnur saga segir frá sjálfsvígi stjórnanda geðsjúkrahússins sem var sagður algjör sadisti. Hann á að hafa verið þvingaður af löngu horfnum sálum upp í klukkuturninn og látinn stökkva þar niður.
Hjúkrunarfræðingur sem varð vitni að atvikinu sagði lækninn ekki hafa látist af fallinu einu saman, heldur vegna undarlegrar þoku sem gufaði upp úr jörðinni, inn um vit læknisins og skildi hann þar eftir líflausan.
Eyjan hefur verið yfirgefin í fjölda ára. Þar standa nokkrar byggingar en leiðir geta verið torveldar vegna lélegs viðhalds og gróðurs sem hefur vaxið yfir þær.
Byggingarnar sem eftir standa eru m.a. spítalinn, fangelsið, kirkjan og geðsjúkrahúsið. Dimmt er innandyra og byggingarnar í niðurníðslu og því þarf að hafa góða lýsingu og fara varlega, sé lagt í ævintýraför á eyjuna.
Poveglia er núna lokuð almenningi og nánast ómögulegt að komast að henni, nema með sérstöku leyfi útgefnu í Feneyjum. Hins vegar er möguleiki að ferðast þangað á eigin bát og ber þá hver ábyrgð á sjálfum sér!