70.000 hafa séð Manchester-myndband Húsvíkinga

Kynningarmyndband sem Húsvíkingar gerðu fyrir íbúa Manchester hefur fengið yfir …
Kynningarmyndband sem Húsvíkingar gerðu fyrir íbúa Manchester hefur fengið yfir 70.000 áhorf á Facebook og YouTube. Skjáskot/Facebook

Kynningarmyndband sem Húsvíkingar gerðu fyrir íbúa Manchester hefur slegið rækilega í gegn á samfélagsmiðlum, með yfir 70.000 áhorf á Facebook og YouTube. Þetta segir í tilkynningu frá Húsavíkurstofu.

Fyrir helgi kom fram í fréttum að EasyJet hefði hafið flug milli Akureyrar og Manchester. Húsavík er í einungis 45 mínútna akstursfjarlægð frá Akureyri.

Húsvíkingar voru afar ánægðir með fréttirnar og ákváðu þess vegna að útbúa myndband, þar sem yngsti leikarinn er aðeins eins árs og sá elsti 95 ára. 

Elsti leikari myndbandsins er 95 ára goðsögn úr Húsavíkursamfélaginu, Villi …
Elsti leikari myndbandsins er 95 ára goðsögn úr Húsavíkursamfélaginu, Villi Páls. Skjáskot/Facebook

Í gær var svo einnig tilkynnt um aukið framboð á flugi EasyJet frá Lundúnum til Akureyrar.

„Við bindum miklar vonir við þessa nýju flugleið EasyJet frá Manchester til Akureyrar og erum þegar farin að taka á móti brosandi Manchester-búum til Húsavíkur. Veturinn er það sem við þurfum að efla og það á að vera stærsta fjárfesting okkar, enda mun það nýta betur aðra fjárfestingu sem hefur verið ráðist í við uppbyggingu ferðaþjónustu hér,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson, markaðsstjóri hafna Norðurþings og verkefnastjóri Húsavíkurstofu.

Örlygur segir markmið myndbandsins að vekja áhuga ferðamanna frá Manchester að skoða það sem nærumhverfið hefur upp á að bjóða og taka rúntinn frá Akureyri til Húsavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert