Einn sögulegasti jólamarkaður Evrópu hringir inn jólin

Á aðventunni í Strassborg í Frakklandi opna jólamarkaðir á hverju …
Á aðventunni í Strassborg í Frakklandi opna jólamarkaðir á hverju torgi víðs vegar um borgina. Ljósmynd/Aðsend

Á hverju ári flykkjast nær tvær milljónir til höfuðborgar jólanna, Strassborgar í Alsace-héraði í Frakklandi, til að upplifa það besta sem aðventan hefur upp á að bjóða og alla þá ótal jólamarkaði sem spretta upp.

Hátíðarandinn í Strassborg svífur yfir fallega skreytt hús og upp úr miðri ljósadýrðinni stendur dómkirkjan í öllu sínu veldi. Í rökkrinu gerast töfrarnir. 

Gengið inn á Kléber-torgið.
Gengið inn á Kléber-torgið. Skjáskot/YouTube.com

Saga jólamarkaðanna

Á miðöldum opnaði St. Klausenmarket við dómkirkjuna og gjöfum var dreift til barnanna. Í mótmælum í borginni á 16. öld lokaði markaður heilags Nikulásar og í staðinn opnaði „Christkindelsmärik“ eða markaður Jesú barnsins.

Árið 1830 var markaðurinn fluttur til Kléber-torgsins og 1870 til Broglie-torgsins, þar sem hann hefur verið síðan.

Upp úr 1990 breiddist markaðurinn út um borgina og í dag eru jafnan settir upp 300 básar á ýmsum torgum í Grande Ile-hverfinu. Hver markaður er með ólíkt þema og í göngufæri hver frá öðrum. 

Frá 16. öld hafa jólamarkaðirnir breytt borginni í vetrarundraland. Með þessari fjögurra alda hefð er markaðurinn sá elsti í Frakklandi og meðal þeirra elstu í Evrópu.

Á hverju ári flykkjast nær tvær milljónir til höfuðborgar Strassborgar …
Á hverju ári flykkjast nær tvær milljónir til höfuðborgar Strassborgar á aðventunni til að upplifa hinn sanna jólaanda. Skjáskot/YouTube.com

Ýmislegt í boði

Á aðventunni lýsist borgin upp og fallega skreytt, þrjátíu metra hátt jólatré stendur tilkomumikið á Kléber-torgi.

Alsace-héraðið er þekkt fyrir listaukandi vörur á borð við vín, handverksbjór, trufflusveppi og hinar margverðlaunuðu Bredele-smákökur. Á Meuniers-torginu er að finna markað fyrir þessar einstöku vörur frá Alsace og jafnvel hægt að smakka. 

Alþjóðlegi jólamarkaðurinn á Gutenberg-torginu er afar skemmtilegur. Þar eru svokallaðir gestabásar með vörum frá öðrum löndum og m.a. hefur verið þar íslenskur bás. Alla jafna er um að ræða matvöru frá löndunum og er heimsókn á markaðinn sögð ómissandi. 

„Christkindelsmärik“ á Broglie-torgi við rætur óperuhússins er lítill og einstakur. Ríkulegir jólaskrautsbásar þar sem boðið er upp á hið hefðbundna jólaglögg, með sætum ilm af kanil, negul og sítrus. Matarúrvalið er engu líkt og einn er hann sagður líflegasti markaður borgarinnar. Úrvalið þar einkennist þó af fjöldaframleiddum vörum.

Einnig má nefna jólamarkaðinn á Cathédrale-torginu sem er ávallt fjölmennur.

Það gætir ýmissa grasa á jólamörkuðunum, jólaskraut, handverk og matur. …
Það gætir ýmissa grasa á jólamörkuðunum, jólaskraut, handverk og matur. Bæði fjöldaframleitt og handunnið. Skjáskot/Youtube

Hægt er að skella sér á sýningar, tónleika, samsöng og fleira sem haldið er í kaþólskum, mótmælenda-, og réttrúnaðarkirkjum víðs vegar um borgina. Þetta tímabil er einnig tilvalið að dást að veggteppum í dómkirkjunni, einu helsta veggteppasafni Frakklands, en þau eru aðeins sýnd á aðventunni og fram til 6. janúar komandi árs.

Christmas Markets in Europe

Visit Strasbourg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert