Dyr Notre-Dame de Paris dómkirkjunnar verða opnaðar að nýju fyrir almenning þann 7. desember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá franska sendiráðinu í Reykjavík.
Í apríl árið 2019 kviknaði í dómkirkjunni sem stóð um tíma í ljósum logum. Bruninn skók franskt samfélag vegna sögunnar sem byggingin hefur að geyma og sögulegra minja sem þar hefðu getað glatast.
Upphaflega var hafist við byggingu Notre-Dame árið 1163 og henni að mestu lokið 1260. Kirkjan er staðsett á Île de la Cité, lítilli eyju á ánni Signu sem rennur í gegnum París.
Strax sama ár og bruninn varð, var hafist handa við endurbyggingu kirkjunnar. Að endurbyggingunni komu helstu handverksmenn, byggingasérfræðingar og aðrir sérfræðingar Frakka, um 2.000 manns og 250 fyrirtæki. Endurbyggingin hefur staðið yfir í fimm ár.
Um 2.000 styttur og skreytingar voru endurheimtar eða endurgerðar og hreinsa þurfti 42.000 rúmmetra af grjóti úr rústunum.
Einnig er hugað að endurskipulagningu torgsins fyrir framan kirkjuna með umhverfisvænni nálgun, en áætlað er að byrja á þeirri vinnu á næsta ári og að framkvæmdir muni standa yfir til 2030.
Í dag mun Emmanuel Macron, forseti Frakklands, heimsækja byggingarsvæðið við kirkjuna í sjöunda og síðasta skipti, áður en hún verður opnuð almenningi.