„Veðrið er alltaf verst í forstofunni“

„Stundum er betra að tjalda í skafli,“ segir Rósa Jónsdóttir. …
„Stundum er betra að tjalda í skafli,“ segir Rósa Jónsdóttir. Hér er hún ásamt eiginmanni sínum Páli Ásgeiri Ásgeirssyni. Ljósmynd/Aðsend

Rósa Sigrún Jónsdóttir, leiðsögumaður hjá Ferðafélagi Íslands, segir erlenda ferðamenn og Íslendinga alla jafna rétt klædda til útivistar hérlendis. Hún hafi þó þurft að taka fólk úr UGG-skóm og neyða það til að leigja hentugri skó eða jafnvel binda brodda á tískuskó, ekki ætluðum til erfiðrar útivistar, fyrir jöklagöngu á hörðum ís austur í Öræfum.  

Rósa er reynslubolti þegar kemur að útivist. Hún er fædd og uppalin á sveitabæ fyrir norðan, rétt hjá Goðafossi. 

„Fyrir vikið er ég alin upp í náttúrunni við að elta kýr og kindur,“ segir hún og náttúrutengingin því ávallt verið mikil.

„Við Páll á Kálfatindi,“ segir Rósa.
„Við Páll á Kálfatindi,“ segir Rósa. Ljósmynd/Aðsend
Rósa leggur hér línurnar fyrir gönguhópinn.
Rósa leggur hér línurnar fyrir gönguhópinn. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin saman í að leiðsegja ferðamönnum

Eiginmaður Rósu er Páll Ásgeir Ásgeirsson og hefur hann skrifað fjölda gönguleiðsögubóka. Rósa er menntaður kennari og myndlistarmaður sem vinnur mikið með náttúruna.

„Þegar við kynnumst þá förum við strax að vera mikið úti og ferðast mikið. En alltaf bara tvö. Árið 2007 fórum við fyrst að leiðsegja fyrir Ferðafélag Íslands.“

Hvorugt þeirra hefur farið í Leiðsöguskólann, að sögn Rósu, en Páll hefur þó kennt í skólanum. Þau hafa hins vegar sótt alls kyns námskeið t.d. VFR-námskeið fyrir skyndihjálp í óbyggðum og jöklanámskeið svo þau geti tryggt öryggi fólks á jökli. 

„Að velja snjóloft.“
„Að velja snjóloft.“ Ljósmynd/Aðsend

„Fræðsluna og þekkinguna höfum við að mestu öðlast á ferðum okkar um landið í tuttugu ár, bæði yfir vetrar- og sumartímann.“

Þeim þykir gott að leiðsegja saman því þau geti, og hafi, lent í ýmsu og nefnir Rósa dæmi þegar þau ætluðu að fara með íslenskan hóp fólks um Laugaveginn, á hálendinu. Þau hafi fljótlega komist að því að einn félagi í hópnum hafi hvorki þorað að ganga upp né niður fjöll, eða stíga í snjóskafl.

Úr varð að Rósa og Páll þurftu að skipta sér upp og hann fór áfram með hópinn á meðan hún fylgdi konunni aðra leið. 

Brugðið á leik í geggjuðu veðri.
Brugðið á leik í geggjuðu veðri. Ljósmynd/Aðsend
Vel útbúið fólk á vel útbúnum hjólum.
Vel útbúið fólk á vel útbúnum hjólum. Ljósmynd/Aðsend

Farin að draga úr vetrarferðum

Í sex ár, frá árinu 2010, héldu þau hjónin utan um 52 Fjöll sem er eitt af fyrstu hópaverkefnunum í útivist.

„Þarna kenndum við fólki að vera úti árið um kring. Það var gengið á 52 fjöll yfir árið og Hvannadalshnjúkur var markmiðið. Fyrsta verkefnið var að kenna fólki vetrarútivist.“

Rósa bætir því við að síðustu ár hafi þau hjónin dregið aðeins úr vetrarferðum. Á sumrin fari þau mikið norður á Hornstrandir og að Fjallabaki, sem er þeirra svæði.

Hjólreiðar í vetraraðstæðum.
Hjólreiðar í vetraraðstæðum. Ljósmynd/Aðsend
Í Hælavík. Rósa les minningar Þórleifs Bjarnasonar.
Í Hælavík. Rósa les minningar Þórleifs Bjarnasonar. Ljósmynd/Aðsend

Útivist aukist mikið og flestir vel útbúnir

Rósa segir að hérlendis hafi sprottið upp alls konar gönguhópar og mikið sé af einstaklingum sem stundi vetrarútivist. „Flestir afla sér reynslu með öðrum,“ útskýrir Rósa og bætir við að fólk læri að búa sig og vera í öryggi hópsins.

Margt fólk læri einnig að útbúa sig rétt í gegnum störf í björgunarsveitunum, aðrir komi inn í gönguhópana og eigi þá kannski ekki mikinn útbúnað.

Hún leggur fyrst og fremst áherslu á að sá sem ætli sér að stunda útivist eigi góða skó og skel, buxur og jakka, sem verji gegn vætu.

„Þar undir er íslenska ullin alltaf best og flestir eiga eina ullarpeysu inni í skáp.“

Línuhavarí undir Hvannadalshnjúk.
Línuhavarí undir Hvannadalshnjúk. Ljósmynd/Aðsend

Annar búnaður skiptir ekki síður máli eins og góðar lúffur sem halda höndunum þurrum. Sjálf segist Rósa hrifnust af ullinni og að góðir ullarvettlingar (belgvettlingar) haldi 80% af einangrun sinni þótt þeir séu blautir. 

Hún mælir með ullinni næst líkamanum og að ullin sé bæði umhverfisvænt og náttúrulegt efni. „Ullin er orðin svo fín. Það er liðin tíð að menn hafi áhyggjur af að hún pirri húðina. Ég er mikil ullarmanneskja, persónulega.“

Hún bætir því við að ullin lykti aldrei og sé fljót að þorna.

Ef búnaðurinn er réttur er hægt að vera úti í …
Ef búnaðurinn er réttur er hægt að vera úti í nánast hvaða veðri sem er. Ljósmynd/Aðsend

Meðhöndlun búnaðar

Ef skór eru ekki mikið notaðir, og nefnir Rósa dæmi um að fólk fari út á skónum einu sinni í viku og gangi þá fimm til sex kílómetra, endist þeir í mörg ár. En límið í sólanum geti gefið sig því það þorni og sólinn dettur undan. Þess vegna sé ekkert endilega betra að fjárfesta í dýrari skóm. „En það er alveg hægt að sóla þá.“

Hún skýtur því inn í að ef fólki hætti til að fá blöðrur sé gott að vera í þynnri sokkum undir ullarsokkunum. Það þurfi að passa að skórnir séu rúmir. „Gott er að máta skó seinnipart dags, þegar fætur eru þrútnir, og að velja sér skó út frá því hverju manni líður vel í.“

Það þarf að vatnsverja skóna, þrífa og hirða vel um þá. Það sama á við um skelina sem getur á endanum misst vatnsvörnina og alltaf þarf að þvo fatnaðinn samkvæmt leiðbeiningum. 

Tindurinn. Jöklar eru ekki alltaf greiðfærir.
Tindurinn. Jöklar eru ekki alltaf greiðfærir. Ljósmynd/Aðsend

Útivist að vetri til

Spurð segist Rósa alltaf mæla með útvist að vetrinum. Margir gönguhópar starfi árið um kring og fyrir byrjendur sé mjög gott að fara inn í slíka hópa, læra þannig að búa sig vel og vera úti að vetrarlagi.

Hún bendir á hve heppnir höfuðborgarbúar séu að komast í fell og fjöll sem eru í stuttri fjarlægð og nefnir þar Úlfarsfell, Helgafell við Hafnarfjörð, Mosfell og svo Stein í Esjunni, þegar fólk er orðið betur búið að ganga á fjöll. 

„Að fara upp á eitthvað, standa á toppnum og njóta útsýnisins er alltaf ákveðin sigurtilfinning,“ segir Rósa og bætir við að það verði að eiga einhvers konar brodda og að til séu ýmsar tegundir af þeim.

Hér stendur Rósa undir Guðnasteini.
Hér stendur Rósa undir Guðnasteini. Ljósmynd/Aðsend

Rósa segir að ekki þurfi alltaf að vera í samkeppni eða að keppast við tíma. „Við þurfum á náttúrutengingunni að halda. Róleg útivist gefur líka mjög heilsufarslegan ávinning.“

Rósa nefnir dæmi um samstarfsverkefni Ferðafélagsins og Krabbameinsfélagsins þar sem þau hjónin ganga með fólki sem er að byggja sig upp eftir krabbameinsmeðferð eða er í meðferð.

„Rannsóknir sýna að með hreyfingu sé hægt að koma í veg fyrir fjögur af tíu krabbameinum.“ Það að faðma tré hafi heilnæm áhrif.

„Það þarf ekki að vera alltaf að berjast einhvers staðar í stórhríðaveðri uppi á fjalli til að fá eitthvað út úr hreyfingunni. Við þurfum alltaf að fara út og veðrið er alltaf verst í forstofunni,“ segir hún og bætir við að alltaf sé hægt að leita inn í skóginn í Heiðmörk ef veðrið er þannig.

Rósa þegar hún var ung á Þeistareykjum í skíðaferð.
Rósa þegar hún var ung á Þeistareykjum í skíðaferð. Ljósmynd/Aðsend

Góður undirbúningur lykillinn

Rósa bendir á að hægt sé að fara inn á vefsíðu Veðurstofunnar og skoða vindlíkön. Þá sé t.d. hægt að velja svæði til útivistar þar sem vindurinn er minnstur þann daginn. Einnig sé hægt að skoða kortin á vef Vegagerðarinnar og bera saman spá Veðurstofunnar og raunverulegar mælingar frá Vegagerðinni.

Hún mælir einnig með Landmælingum Íslands og kortavefnum map.is. Þar sé hægt að skoða loftmyndir, skoða göngustígana og aðgang að bílastæðum og þannig meta gönguleiðina hverju sinni. 

„Ef fólk er á eigin vegum og er að fara þar sem ekki er stikuð slóð þá verður það að kunna rötun.“

Gengið í línu á Eyjafjallajökli.
Gengið í línu á Eyjafjallajökli. Ljósmynd/Aðsend
Á Tindafjallajökli á tindnum Sindra. Ýmir og Ýma að baki.
Á Tindafjallajökli á tindnum Sindra. Ýmir og Ýma að baki. Ljósmynd/Aðsend
Á Snókaheiði. Hér sést hve mikilvægt er að kunna að …
Á Snókaheiði. Hér sést hve mikilvægt er að kunna að rata. Ljósmynd/Aðsend
Hópur á Tindfjallajökli.
Hópur á Tindfjallajökli. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert