Dekkri hliðar Dubaí

Það er vandlifað í flóknum heimi laga og reglugerða Dubaí.
Það er vandlifað í flóknum heimi laga og reglugerða Dubaí. AFP

Dubaí er staður einna helst þekktur fyrir íburð og glamúr. Fólk flykkist þangað til þess að dvelja á fallegum hótelum og borða á dýrum veitingastöðum. En það sem færri vita er að þar ríkja mjög ströng lög.

Breskur 18 ára drengur fékk fyrir skömmu að kynnast dekkri hliðum Dubaí þegar hann var handtekinn og dæmdur í eins árs fangelsi fyrir að hafa átt í kynferðislegu samneyti (með samþykki) við 17 ára stúlku sem einnig var ferðamaður. 

Myndatökur

Það er í mörgum tilfellum ólöglegt að taka myndir af byggingum ríkisstofnana eða hersvæða. Þá er líka ólöglegt að taka myndir af fólki án þeirra leyfis.

„Það er algerlega bannað að skella af mynd af fólki án þeirra leyfis. Þú gætir lent í miklum vandræðum. Jafnvel þótt það sjáist rétt aðeins í það í bakgrunninum. Það er ekki bara ókurteisi, það er ólöglegt,“ segir Simon Hood framkvæmdastjóri John Mason International í viðtali við The Daily Mail.

VPN tengingar

„Í Dubaí er ólöglegt að nota VPN tengingar til þess að komast framhjá hindrunum á netinu. Margir hafa gleymt að slökkva á slíku hjá sér þegar þeir fara til Dubaí og eru því óafvitandi að brjóta lög.“

Samfélagsmiðlar

„Það er bannað að birta á samfélagsmiðlum nokkuð sem gæti verið túlkað sem gagnrýni á ríkið, fyrirtæki eða einstaklinga þar í landi.“

Valmúafræ

„Þessi fræ, jafnvel þótt þau séu bara notuð í bakstur, eru bönnuð vegna tenginga þeirra við ópíum.“

Lyf

Ýmis lyf sem innihalda kódein gætu valdið usla. Mikilvægt er að hafa öll tilskilin gögn þegar maður er að ferðast með lyfjabúrið sitt.

Kynlíf

Kynlíf með aðila af sama kyni er ólöglegt og kynlíf undir átján ára aldri er ólöglegt. Framhjáhald, sé maður giftur, er einnig ólöglegt. Kvarti makinn þá getur það varðað sex mánaða fangelsisdóm fyrir framhjáhaldarann.

Opinber ástaratlot

Opinber ástaratlot eru óvinsæl. Hætt er á handtöku ef maður er of persónulegur í samskiptum við aðra.

Blótsyrði

Það er ólöglegt að blóta eða gefa einhver dónaleg merki á almannafæri.

Áfengi

Það er ólöglegt að drekka eða að vera undir áhrifum á almannafæri. Ferðamenn geta keypt áfengi á hótelum og veitingastöðum en til þess að mega drekka á heimilum þarf að útvega sér tilskilin leyfi. Þá er ekkert umburðarlyndi gagnvart fíkniefnum.

Föt

Það er bannað að klæðast fötum sem brjóta í bága við hefðbundna kyntjáningu einstaklinga. Þá eiga konur að hylja axlir og hné. Einnig má aðeins klæðast sundfötum við sundlaugar eða á ströndinni.

Ramadan

Á föstumánuðum þá er bannað að borða, drekka og reykja á almannafæri frá sólarupprás til sólseturs. Þeir sem ekki eru múslímar eiga einnig að virða þá reglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert