Næstum fimm hundruð árum eftir fall Inkaveldisins er enn til ein brú úr vegakerfi Inka og er hún endurofin úr grasi ár hvert.
Qhapaq Nan eða konungsvegurinn er meistarasmíð Inka og vegakerfið sem þeir notuðu til samskipta, viðskipta og hernaðaraðgerða. Sögulegur þjóðvegurinn tengdi saman snævi þakta tinda Andesfjalla í meira en 6.000 metra hæð við regnskóga álfunnar, hrjóstrugar eyðimerkur og gapandi gljúfur.
Inkar boruðu risastór göng í gegnum fjöll, lögðu óaðfinnanlega steinstíga um dali og útskorna hringstiga upp klettaveggi. Þar sem gljúfrin tóku við notuðu þeir snilldarkerfi til að hanna og búa til hengibrýr, ekki úr málmi eða tré, heldur ofnar úr grasi. Brýrnar eru taldar hafa verið um tvö hundruð og voru svo sterkar að þær gátu borið her manna.
Eina brúin sem stendur eftir dinglar yfir Apurimac-ána, nálægt fimm hundruð manna þorpinu Huinchiri á suðurhálendi Perú. Brýrnar voru áður í umsjón brúarmeistara en aðeins einn er eftirlifandi, Arizapana. Hann notar sömu aðferð og forfeður hans við að gera við brúna en það þýðir að hún endist aðeins í eitt ár í senn og þarfnast því árlegrar endurnýjunar. Það krefst mikils að vefja 30 metra brú úr grasi.
Á hverju ári í júní koma saman um 1.100 manns frá fjórum nærliggjandi samfélögum til að skera, flétta og breyta perúsku fjaðragrasi í vafninga sem eru sterkir á við stál. Í þessa þrjá daga sem tekur að endurbyggja brúna hefur Arizapana umsjón með verkinu. Að lokum er það Arizapana sem fer með bæn til móður jarðar, Pachamama.
Staðsett í vestanverðri Suður-Ameríku, falin á milli stærsta regnskógs jarðar, Amazon, þurrustu eyðimerkurinnar Atacama og hæsta fjallgarðs á vesturhveli jarðar Andesfjallanna, þreifst ein sérstæðasta menning heims, Inkaveldið.
Þeir náðu að stækka yfirráðasvæði sitt frá Cusco í Perú árið 1430 og lifðu í einangrun í allt að 100 ár, eða þar til Spánverjar lögðu svæðið undir sig 1532.
Með ótrúlegri verkfræði og miklu skipulagi tókst þeim að byggja upp heimsveldi sem er það stærsta í sögu Ameríku og náði yfir Kólumbíu, Ekvador, Perú, Bólivíu, Síle og Argentínu. Heimsveldi sem samanstóð af tólf milljónum manna þar sem töluð voru yfir hundrað tungumál. Þannig tókst Inkum að byggja upp veldi án hjólsins, peninga, járn- eða stálverkfæra svo fátt eitt sé nefnt.