Vinkonurnar Halla Margrét Baldursdóttir og Thelma Rut Guðmundsdóttir, nemendur í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík, ákváðu að skella sér í skiptinám til Barselóna. Þar upplifðu þær nýtt skólalíf, spænska menningu og einstaka borg sem þær segja hafa allt til alls.
Halla og Thelma voru sammála um að Barselóna væri spennandi val fyrir skiptinám, þó að ástæðurnar hafi verið ólíkar.
„Ég valdi Barselóna því ég tala spænsku og vildi viðhalda tungumálinu. Þetta er líka uppáhalds staðurinn minn: borgin er stór, fjölbreytt og veðrið alltaf gott,“ segir Thelma.
Halla hafði önnur sjónarmið:
„Mig langaði í borg með hlýju veðurfari, og eftir að hafa skoðað fleiri valkosti á Spáni stóð Barselóna upp úr. Hún býður upp á það besta úr tveimur heimum – stórborg og strönd.“
Skólinn þeirra, La Salle Bonanova, er staðsettur ofarlega í borginni með fallegu útisvæði, padel-velli og körfuboltaaðstöðu. Þessar aðstæður vöktu ánægju, en innviðirnir voru ekki upp á marga fiska.
„Matsalurinn og kaffiterían voru ekkert sérstök miðað við það sem við erum vanar heima. Við lærðum lítið í skólanum sjálfum því bókasafnið var svo bjart að það minnti helst á tannlæknastofu!“
Þær bæta þó við að borgin sjálf bæti upp fyrir það: „Sem betur fer er borgin stútfull af fallegum kaffihúsum og bókasöfnum þar sem hægt er að læra í ró og næði.“
Þær segja að leitin að íbúð hafi reynst krefjandi og tekið lengri tíma en þær áttu von á. Að lokum fundu þær íbúð í Sant Antoni.
„Staðsetningin á íbúðinni var mjög þægileg fyrir flestallt en að komast í skólann var pínu bras,“ útskýra þær. Ferðin í skólann tók um 40 mínútur með almenningssamgöngum.
Í upphafi voru þær þó efins um staðsetninguna, þar sem hverfið liggur nálægt El Raval, sem oft er talið eitt hættulegasta svæði Barselóna.
„Við vorum dálítið hikandi í byrjun, en við vorum heppnar og fljótar að aðlagast. Hverfið okkar reyndist frábært,“ bæta þær við.
Dagarnir í Barselóna voru fjölbreyttir og uppfullir af nýjum upplifunum. Þær sóttu tíma í skólanum alla virka daga, en hver tími var þrír klukkutímar og kenndir á mismunandi tímum dags, frá klukkan 8.00 til 20.00. Þessi sveigjanleiki gaf þeim tækifæri til að skipuleggja daginn á sínum forsendum.
„Við reyndum að vera duglegar að fara í ræktina eða út að hlaupa fyrir og eftir tímana, eftir því hvernig dagskráin var,“ segja þær.
Í upphafi skiptinámsins nutu þær þess að heimsækja ströndina reglulega, enda var veðrið hlýtt og gott. Auk þess fóru þær í dagsferðir til staða eins og Sitges og Blanes, sem þær segja frábæra staði til að heimsækja.
„Strendurnar þar eru ótrúlega fallegar og við mælum klárlega með því að skoða staði í nágrenni borgarinnar.“
Barselóna býður upp á fjölbreytta matsenu og skemmtun. Veitingastaðurinn Gatsby stóð sérstaklega upp úr með lifandi danssýningu á kvöldin. Einnig nefna þær staðinn Apriori fyrir frábæran mat og notalega stemningu.
Þær segja einnig að borgin sé draumur fyrir þá sem hafa gaman af því að versla notuð föt:
„Það eru markaðir á hverju horni með ótrúlega flottum fötum. Við gátum alltaf fundið eitthvað skemmtilegt að gera.“
Félagslífið í skólanum var ekki jafn öflugt og þær áttu von á:
„Það var illa auglýst og við komumst að félagslífinu frekar seint,“ segja þær. Þær tóku þó þátt í eina viðburðinum á árinu, Oktoberfest, sem þótti mjög vel heppnaður.
„Það var mikil stemning með bjór, pylsum og skemmtun, en við erum vanar fleiri viðburðum heima, eins og vísindaferðum og árshátíðum.“
Ein af þeim minningum sem stendur upp úr hjá þeim var ferð til Marokkó, þar sem þær gistu í eyðimörkinni í tjaldi, kynntust menningu landsins og fengu einstaka upplifun. Einnig þótti þeim vænt um að fá vini og fjölskyldu í heimsókn á meðan dvölinni stóð.
„Skiptinám kenndi okkur að búa einar og axla ábyrgð á daglegu lífi – þetta var ekkert hótel mamma!“
Þegar þær eru spurðar hvaða ráð þær myndu gefa öðrum sem íhuga skiptinám svara þær ákveðnar:
„Njótið tímans í botn og leggið áherslu á að kynnast fólki og búa til minningar. Tíminn líður hratt og reynslan sem þið takið með ykkur er ómetanleg.“