Fjölmargar fréttir sem birtust á ferðavef mbl.is. vöktu mikla lukku hjá lesendum á árinu sem er að líða. Þegar listinn er skoðaður kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós, en TikTok-myndskeið ævintýraþyrstra ferðalanga, undarlegt umferðarskilti, hátt verðlag, gjafmildi íslensks flugmanns og frægir á framandi slóðum eru á meðal mest lesnu frétta ársins 2024.
Hér eru 10 fréttir sem fengu mesta athygli á vefnum í ár:
Í ágúst birtist myndband á TikTok af ferðalöngum sem reyndu við Krossána á BMW X5-lúxuskerru. Þar sést bíllinn keyra ofan í ána, en stuttu síðar er bíllinn kominn á flot og sést fljóta niður kraftmikla ána.
Í janúar birtist mynd af íslensku skilti í Facebook-hóp þar sem undarleg umferðarskilti, þá aðallega í Bandaríkjunum, eru rædd. Íslenska skiltið vakti mikla athygli og undrun meðal hópmeðlima sem eru alls tæplega 47 þúsund.
Portúgalska eyjan Madeira hefur vakið sérstaka athygli að undanförnu, en hún er gjarnan kölluð „Havaí Evrópu“ eða „Blómaeyjan“ og stendur sannarlega undir nafni.
Eyjan er sannkölluð paradís fyrir náttúruunnendur og útivistarfólk, en hún býður upp á allt sem okkur Íslendinga dreymir um – sól, hlýju, rólegra „tempó“ og fjölbreytta afþreyingu. Madeira er því tilvalinn áfangastaður fyrir þá sem eru komnir með leið á því að sitja á amerísku ströndinni á uppáhaldseyju Íslendinga, Tenerife, og langar að upplifa eitthvað alveg nýtt og ferskt.
Áhrifavaldurinn Emi Gibson heimsótti Ísland í upphafi árs og gaf fylgjendum sínum innsýn í ferðalagið á TikTok.
„Við erum nýkomin til Íslands, og bara ábending, ef þú ert að fara til Íslands, seldu vinstra nýrað, seldu bæði nýrun og hjartað, seldu sál þína, seldu allt áður en þú ferð,“ sagði Gibson, sem var í sjokki yfir háu verðlagi.
Þyrluflugmaðurinn Gísli Matthías Gíslason hefur heimsótt öll helstu náttúruundur Íslands og fangað einstök augnablik á filmu sem hann deilir gjarnan með áhugasömum á samfélagsmiðlum.
Ljósmynd sem hann tók af áströlskum hjónum á Mýrdalsjökli undir árslok í fyrra vakti mikla athygli og varð hlutskörpust í ljósmyndakeppni hjá hinu virta þyrlutímariti HeliOps í september.
Í byrjun júní fór Eva Gunnarsdóttir flugfreyja hjá Play í flug til Baltimore. Flugið var ekki eins og hver annar vinnudagur þar sem eiginmaður hennar, Friðrik Ottesen flugstjóri, flaug vélinni og dætur þeirra tvær, þær Ísól Alda Ottesen og Svala Sóllilja Ottesen, voru flugfreyjur í fluginu.
Birgitta Líf Björnsdóttir, samfélagsmiðlastjarna og markaðsstjóri World Class, flaug til Spánar með son sinn, Birni Boða, rúmum mánuði eftir fæðingu hans.
Spánn er í miklu uppáhaldi hjá mæðginunum sem hafa heimsótt landið þó nokkrum sinnum á árinu.
Söng- og leikkonan og prjónasnillingurinn, Salka Sól Eyfeld, fékk sig fullsadda af kuldanum og leiðindaveðrinu sem herjaði á íbúa höfuðborgarsvæðisins í maí og flaug ásamt börnum sínum til Tenerife.
Athafnakonan Lína Birgitta Sigurðardóttir og unnusti hennar, Guðmundur Birkir Pálsson kírópraktor, betur þekktur sem Gummi kíró, lentu í óhugnanlegu atviki þegar þau heimsóttu borgina Barselóna á Spáni fyrr á árinu.
Myndband af ferðasögu kanadísks pars um Ísland vakti mikla athygli á samfélagsmiðlasíðunni TikTok í haust.
Í myndbandinu má sjá þau Brandon Clarke og Paige Lancelot heimsækja helstu náttúruperlur landsins áður en Clarke fer á skeljarnar við Dynjanda á Vestfjörðum, en myndbandið er hálfgerð niðurtalning í sjálft bónorðið.