Fyrsta bók J. R. R. Tolkiens í þríleiknum Hringadróttinssaga, The Fellowship of the Ring, kom út sumarið 1954. Sjötíu árum seinna kom út önnur þáttasería, The Ring of Power, í ágúst 2024.
Umgjörð þáttanna er glæsileg og landslag hverrar senu líkt og af öðrum heimi. Þá mætti halda að Tolkien hefði skapað landslagið líkt og hann skáldaði persónur trílógíunnar. Svo er víst ekki því margir staðanna í sögum Tolkiens eru til og gæti heimsókn til þeirra glætt heim Tolkiens lífi.
Þegar Tolkien skrifaði Hringadróttinssögu í kringum 1940 bjó hann um tíma í hinum virta heimavistarskóla Stonyhurst í Lancashire á Englandi, en sonur hans kenndi við skólann. Tolkien eldri gekk um skóglendið og hæðirnar í Ribble-dalnum þar sem hann sótti innblástur til að skapa Shire, heimili Hobbitanna.
Í dag geta áhugasamir farið Tolkien-slóðina sem var opnuð 2002. Leiðin hefst í Hurst Green-þorpinu, nánar tiltekið á 17. aldar kránni Shireburn Arms, þar sem Tolkien var fastagestur. Gönguleiðin liggur um sjö kílómetra hæðótt, ræktað land, fram hjá glæsibyggingum Stonyhurst-skólans og yfir söguleg kennileiti eins og Cromwell's-brúna.
Margt á leiðinni minnir óneitanlega á verk Tolkiens, t.a.m ber Maríukirkjan, í nærliggjandi þorpi Newchurch in Pendle, augnlaga útskurð hálfa leið upp í turninn. Útskurðurinn er þekktur sem auga Guðs, líkt og alsjáandi auga Saurons úr Hringadróttinssögu.
Tolkien og kona hans Edith giftu sig árið 1916 og fóru í brúðkaupsferð til Somerset-þorpsins í Clevedon. Á meðan þau dvöldu þar skoðuðu þau hið stórbrotna landslag: Cheddar Gorge. Kalksteinsdalur þar sem eru aragrúi hella með veggjum þöktum flóknum bergmyndunum, grjóti sem rís upp úr hellisgólfinu og dropasteinum.
Í einkabréfi Tolkiens frá 1971, gefnu út 1981 sem hluti af The letters of J.R.R. Tolkien, kemur fram að hellarnir í Cheddar Gorge hafi verið innblástur fyrir glitrandi hellana í Helm's Deep.
Ætla má að aðdáendur Tolkiens yrðu fljótir að þekkja Denize Bluffs, svæði með bylgjóttu landslagi og runnum á norðureyju Nýja-Sjálands. Landslagið kemur fyrir í myndinni Hobbitanum, The Hobbit: An Unexpected Journey, þar sem enginn annar en Bilbo Baggins lendir í fjandsamlegum tröllum í Trollshaw; skógi vöxnu, hæðóttu landslagi.
Denize Bluffs stendur á landi sem hefur verið í einkaeigu sömu fjölskyldu í þrjár kynslóðir. Þar er rekið sauðfjár- og nautgripabú. Eigendurnir selja skoðunarferðir um landið, því sem sést í kvikmyndunum og sjónvarpsþáttunum, og lífgað er upp á ferðirnar með sögum Tolkiens.
Tolkien var trúaður maður og þrátt fyrir að hafa þvertekið fyrir að Hringadróttinssaga væri kristin allegóría er verkið gegnsýrt af andlegum tilvísunum.
Þegar Tolkien var prófessor við Oxford-háskóla heimsótti hann gjarnan nærliggjandi svæði, Cotswold, þar sem eru gullsteinsþorp, aflíðandi hlíðar og fallegar kirkjur.
Ein af kirkjunum, St. Edward's-kirkja, hefur lengi verið eyrnamerkt Tolkien. Norðurhurð kirkjunnar er skorin úr massívum, negldum viði, með bogadreginni umgjörð og olíulampa sem hangir fyrir ofan hana. Til beggja hliða eru yew-tré sem gróðursett voru fyrir þremur öldum og hafa vaxið við kirkjuna.
Dyrnar á St. Edwards líkjast teikningum Tolkiens af Durin-dyrunum að falda innganginum í dvergaborgina Khazad-dûm.
Tungllíkar eyðimerkur Teide-þjóðgarðsins á Tenerife eru áberandi í nýjustu þáttaröðinni The Ring of Power og er hrjóstrug auðnin sögusvið hins dularfulla Stranger, minnislausa galdramannsins, sem ferðast þar um með tvo hobbita.
Frumbyggjar Guanche á Tenerife trúðu því að Teide væri hliðið að undirheimum hins illgjarna Guðs Guayota. Teide virðist því hafa verið fullkomin staðsetning fyrir tökurnar og ríki Rhûn, sem í verkum Tolkiens er dularfullt svæði siðferðislegrar spillingar og myrkra galdra.
Öll kvikmyndasería Hringadróttinssögu var tekin upp á Nýja-Sjálandi, heimalandi leikstjórans Peters Jacksons. Árnar og skóglendið í Fiordland, svæði með grænum hæðum og snævi þöktum fjöllum sem teygja sig niður í jökulskorna firði og víkur, eru áberandi í kvikmyndunum.
Þeir staðir í Fiordland sem koma fram í kvikmyndunum eru m.a. Fangorn-skógur, heimkynni risastóru talandi trjánna Ents og Waiau-áin, sem er Anduin-áin í verkum Tolkiens og er lengsta áin í Middle-Earth sem birtist í fyrstu loftmyndinni af The Fellowship of the Ring.