Icelandair og Southwest Airlines undirrita samstarfssamning

Ryan Green, framkvæmdastjóri umbreytinga hjá Southwest, Andrew Watterson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs …
Ryan Green, framkvæmdastjóri umbreytinga hjá Southwest, Andrew Watterson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Southwest, Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu og markaðssviðs, Helgi Már Björgvinsson, yfirmaður alþjóðatengsla hjá Icelandair ásamt áhafnarmeðlimum frá báðum flugfélögum. Ljósmynd/Aðsend

Icelandair og bandaríska flugfélagið Southwest Airlines undirrituðu í gær samstarfssamning og verður Icelandair þar með fyrsta samstarfsflugfélag Southwest.

Samningurinn var undirritaður í sendiherrabústað Íslands í Washington. Samstarfið, sem hefjast mun í febrúar, mun gefa viðskiptavinum tækifæri á góðum tengingum á milli leiðakerfa flugfélaganna tveggja. Southwest er stærst flugfélaga í Bandaríkjunum hvað innanlandsflug varðar og býður upp á flug til fjölda áfangastaða um gjörvöll Bandaríkin.

Áður hafði verið tilkynnt um viljayfirlýsingu um að félögin hygðust hefja samstarf um flugtengingar um Baltimore-Washington flugvöll en í dag var tilkynnt um að fyrir sumarið verði einnig hægt að tengja á milli leiðakerfa flugfélaganna í Nashville og Denver. Þar með munu opnast mjög öflugar tengingar fyrir viðskiptavini til fjölda áfangastaða í Norður-Ameríku og sömuleiðis til Íslands og áfram til Evrópu.

„Með samstarfinu munu opnast öflugar tengingar“

„Það er mjög ánægjulegt að undirrita þennan samstarfssamning við Southwest Airlines og erum við mjög stolt af því að þau hafi valið okkur sem sitt fyrsta samstarfsflugfélag. Með samstarfinu munu opnast öflugar tengingar með Southwest til fjölda áfangastaða vestanhafs og sömuleiðis góðar tengingar til Íslands og áfram til áfangastaða okkar í Evrópu. Við bjóðum Southwest velkomin í öflugan hóp samstarfsflugfélaga okkar og hlökkum til að vinna með þeim að því að bjóða viðskiptavinum okkar upp á þægilega og ánægjulega ferðaupplifun,“ segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair.

Ryan Green, framkvæmdastjóri umbreytinga hjá Southwest Airlines er spenntur fyrir komandi tímum og nýjum verkefnum. 

„Það er við hæfi að við hefjum þennan nýja kafla í sögu okkar með samstarfi við góða vini okkar hjá Icelandair. Við erum spennt fyrir að geta boðið viðskiptavinum beggja flugfélaga aðgang að nýjum áfangastöðum og þægilegri ferðaupplifun en erum ekki síst þakklát fyrir að hafa notið sérfræðiþekkingar starfsfólks Icelandair sem aðstoðaði okkur við að koma samstarfinu á fót.“

Tengingar um Nashville og Denver bætast við fyrir sumar.
Tengingar um Nashville og Denver bætast við fyrir sumar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert