Flugfélagið Play tilkynnti á Facebook-síðu sinni rétt í þessu að félagið vildi bjóða leikkonunni Katrínu Halldóru Sigurðardóttur frítt flug til einhverra af áfangastöðum félagsins. Í færslunni eru nefndir staðir eins og eyjan Madeira og borgin Porto í Portúgal, spænska borgin Valencia og Marrakesh í Marokkó.
Ástæðan er slæm upplifun Katrínar og fjölskyldu hennar af fríinu á Tenerife sem hún lét í ljós í hlaðvarpsþættinum Morgunbollinn, með Elísabetu Gunnarsdóttur.
„Algjört ofmat. Þetta er hræðilegasti staður á jörðu. Ég fór til Tenerife um páskana 2022 og ég bíð þess ekki bætur. Þetta er hræðilegasti staður á jörð. Veistu það, ég ætla aldrei aftur að fara þarna,“ svaraði Katrín þegar Elísabet spurði hvort Tenerife væri ofmat eða vanmat.
„Ég ætla ekki að fara aftur. Ég fór þarna um páska og ég var bara eins og ég væri á göngugötunni á Akureyri. Hæ, Stína! Við sátum á einhverjum veitingastað, sjáðu þarna er Palli, bróðir afa!“
Katrín vandar ferðaskrifstofunni sem seldi fjölskyldunni ferðina ekki kveðjurnar í hlaðvarpsþættinum en segir jafnframt að kvörtunarbréfið hafi verið gott efni í leikrit.
Í færslu Play segir m.a.: „Ef þú vilt vera nokkuð viss um að hitta engan sem þú þekkir mælum við með króatísku perlunni Pula. Þar er til dæmis útilokað að finna íslenska matseðla á veitingahúsum.“ Þá segist flugfélagið spennt fyrir að fá úttekt Katrínar á einhverjum ofangreindra áfangastaða.
Hér er hægt að hlusta á hlaðvarpsþáttinn í heild sinni: