Flottustu ódýru hótelin í París

Hotel les Deux Gares, Remix hotel og Hotel Sookie.
Hotel les Deux Gares, Remix hotel og Hotel Sookie. Samsett mynd/Instagram

Á ferðavefnum Condé Nast Traveller stendur ekki stendur á lýsingum á hótelherbergjum í París og því hvað gestir fá fyrir aurinn. Fyrir verð á rúmgóðri svítu með fallegu útsýni í annarri evrópskri borg er hægt að fá „skókassa“ í París með glugga sem snýr út að húsasundi.

Ætli ferðamenn að uppfæra gæðin mun það kosta handlegginn. Hins vegar, sé betur að gáð, er vel hægt að finna hótel í París sem bjóða upp á falleg herbergi á viðráðanlegu verði. Hér á eftir eru nefnd nokkur þeirra, sem Condé Nast hefur upplýsingar um af fyrstu hendi.

La Planque

Hótelið opnaði fyrir örfáum árum og þótti frekar byltingarkennt. Fyrrum íbúðarblokk var breytt í 36 herbergja hótel í retro-stíl, af hönnuðunum Dorothée Delaye og Daphné Desjeux. Einkenni hönnunarinnar er drungaleg litapalletta af kakí, skógargrænu, gráu og ryði og fyllir hún hvert rými fágaðri fortíðarþrá.

Í anddyrinu á jarðhæð, sem áður var sælgætisverslun, færast litirnir yfir í brúna og mjúka tóna, jafnvel út í bleikt. Hótelið er staðsett í tíunda hverfi Parísarborgar.

Herbergin á La Planque eru fremur dökk og hlýleg.
Herbergin á La Planque eru fremur dökk og hlýleg. Skjáskot/Instagram

Hotel Sookie

Innan um fínar hönnunarverslanir og hippabúðir í La Marais-hverfinu er skemmtilegt að finna hótel á borð við Sookie. Líkt og með La Planque sá Dorothée Delaye um hönnunina og tókst vel til að halda í sögulegan sjarma hótelsins. Stíllinn er sagður snjall en keramiklampar og útskorinn viður virðast mun dýrari en viðráðanlegt verð hótelsins gefur til kynna. Aftur er notast við hlýja retrótóna af jarðgrænum, brúnum og rústrauðum.

Innanstokksmunirnir í setustofunni minna á vörur sem hægt er að fá í einum af fínni verslununum í La Marais. Húsgögn úr náttúrulegum við, drapplitir og brúnir tónar og heimilislegt sambland af bókum, vínylplötum og keramiki.

Innanstokksmunirnir í setustofunni á hotel Sookie minna á fínu verslanirnar …
Innanstokksmunirnir í setustofunni á hotel Sookie minna á fínu verslanirnar í La Marais. Skjáskot/Instagram

Hotel les Deux Gares

Steinsnar frá Eurostar-lestarstöðinni sá Adrien Gloaguen tækifæri í að glæða byggingu í Haussmann-stíl lífi og gera úr henni hótel. Hann fékk breska innanhússhönnuðinn Luke Edward Hall í lið með sér og úr varð hönnun full gleði með vísan í hið gamla en einnig spennandi nýjungar. 

Litasamsetningar eru djarfar sem laðaði að athyglina jafnvel áður en hótelið opnaði. Frönskum fornminjum er tyllt við hliðina á lömpum frá miðri öld, ferningar skákborðs í fullkominni andstæðu við hlébarðasófasett og svo aftur við veggfóður áttunda áratugarins. Svíturnar á fimmtu hæð bjóða upp á útsýni sem er sjaldséð í París.

Stíllinn á Hotel les Deux Gares er „allt í bland“.
Stíllinn á Hotel les Deux Gares er „allt í bland“. Skjáskot/Instagram

Hotel Rochechouart

Í áttunda hverfi Parísar er Pigalle-hverfið. Þar stendur bygging í Art Deco-stíl sem áður var hótel og heitur reitur á kvöldin á Marguerite de Rochechouart-breiðstrætinu og laðaði að listamenn, menntamenn og fræga fólkið.

Arfleifð byggingarinnar var endurvakin af Charlotte de Tonnac og Hugo Sauzay með nútímalegri snertingu. Sum fínustu upprunalegu smáatriðin fengu að halda sér, allt frá bláu mósaíkgólfi til marmarastigans og glerlyftunnar.

Á efri hæðinni fengu 106 herbergi haustlegan blæ með tónum af bronsi, járnkenndum gulum, djúp rauðum, brúnum og fjólubláum, ásamt litum sem minna á leir. Sacré Cæur blasir við úr gluggum sem snúa norður. 

Útsýnið í sumum herbergja á Hotel Rochechouart er stórbrotið.
Útsýnið í sumum herbergja á Hotel Rochechouart er stórbrotið. Skjáskot/Instagram

Remix hotel

Hótel með þema níunda áratugarins og litasamsetningu af þungum og heitum bleikum litum. Á mottunni í anddyrinu blasa við orðin „forever young“ og vísa í samnefndan smell hljómsveitarinnar Alphaville frá 1984. 

Fyrir ofan rúmin í herbergjunum eru neon-ljósaskilti sem á stendur „öskraðu“ og ætti ekki að koma að sök þótt gestir verði við beiðninni þar sem herbergin eru hljóðeinangruð.

Saar Zafrir Designs sáu um hönnun hótelsins en því er líkt við atriði úr Star Wars þegar stigið er úr lyftunni á herbergisganginum; loft og gólf er þakið svart-hvítu köflóttu mynstri og neon-ljósalína umlykur herbergisdyrnar á ganginum. Í þessu húsnæði virðist allt leyfilegt. Á jarðhæðinni má finna biljarð- og fótboltaborð, spilakassa og veitingastað með flísalagða veggi.

Herbergisganginum á Remix hotel er líkt við senu úr Star …
Herbergisganginum á Remix hotel er líkt við senu úr Star Wars. skjáskot/Instagram

Condé Nast Traveler

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert