Það er fátt ergilegra en að lenda eftir langt ferðalag og þurfa svo að ferðast um langa vegalengd til þess að komast á áfangastað. Þrátt fyrir að nöfn einstakra flugvalla gefi til kynna hvaða borg þeir tilheyri þá þarf það ekki endilega að þýða að flugvöllurinn sé steinsnar frá borginni.
Hefurðu ferðast til Paris-Vatry-flugvallarins? Ef svarið er já, hefurðu eflaust komist að því að flugvöllurinn er í um 160 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni.
Svipaða sögu er að segja um Munich West-flugvöllinn, sem er í um 120 kílómetra fjarlægð frá Munich. Frankfurt Hahn er um 125 kílómetra frá Frankfurt og í raun er flugvöllurinn nær Lúxemborg. Sé ekki áhugi fyrir að enda á tveggja tíma rútuferð eftir flug er kostur að velja borg með nálægan flugvöll.
Af evrópskum flugvöllum er flugvöllurinn á Gíbraltar næst borginni sem hann er kenndur við. Hægt er að segja að vélarnar lendi nánast í miðbænum, aðeins í 1,4 kílómetra fjarlægð frá máríska kastalanum og markaðstorginu. Hægt er að taka rútu í miðbæinn sem tekur um fimm mínútur og ganga tekur um fimmtán mínútur.
Pisa International Airport á Ítalíu er byggður við miðbæinn. Aðeins í 1,5 kílómetra fjarlægð frá aðallestarstöðinni, en þrjá kílómetra frá miðbænum. Öllu skemmtilegra er fólksflutningabíllinn sem skutlar fólki á milli flugvallarins og aðallestarstöðvarinnar en ökuferðin tekur ekki nema fimm mínútur.
Sé ferðinni heitið til Eistlands gæti það glatt einhverja að Tallinn-flugvöllurinn er mjög nálægur miðbænum. Aðeins í fjögurra kílómetra fjarlægð frá gamla miðbænum tekur bílferðin ekki nema um fimmtán mínútur.
Annað Eystrasaltsríki er með stutta vegalengd á milli borgar og flugvallar, en það er Litháen. Vilníus-flugvöllurinn er 5,9 kílómetrum sunnan af miðbænum. Strætóferðir aka beina leið á tíu mínútna fresti.
Líkt og í Písa hafa margir flugvellir fjárfest í góðum fólksflutningum. Lissabon-flugvöllur er góða tíu kílómetra frá miðborginni. Lest ekur farþegum á milli borgar og flugvallar á minna en tuttugu mínútum fyrir aðeins örfáar evrur.
Rétt fyrir utan flugstöðina á Malaga er lestarstöð. Ferðin er um tólf kílómetrar en C-1 línan kemst inn í borgina á aðeins tólf mínútum.
Frá flugvellinum í Zurich er hægt að komast inn í borgina á aðeins tíu mínútum á aðallestarstöðina Hauptanhof. Frá Kastrúp í Kaupmannahöfn er hægt að komast í miðbæinn á þrettán mínútum fyrir aðeins fimm evrur.
Að lokum, áður en rokið er í að panta Uber, er um að gera að íhuga hvaða kostir eru í boði sem geta jafnvel komist á áfangastað á styttri tíma með minni kostnaði og umhverfisáhrifum.