Út um allt er kominn í loftið

Nýr upplýsingavefur um útivist á höfuðborgarsvæðinu, Út um allt, er …
Nýr upplýsingavefur um útivist á höfuðborgarsvæðinu, Út um allt, er kominn í loftið.

Nýr upplýsingavefur um útivist á höfuðborgarsvæðinu, Út um allt, er formlega kominn í loftið. Á vefnum er að finna yfirlit og upplýsingar um fjölda útivistasvæða og göngu- og hjólaleiða um allt höfuðborgarsvæðið.

Á vefnum má finna yfir þrjátíu útivistarsvæði og fjörutíu göngu- og hjólaleiðir um allt höfuðborgarsvæðið og mun bætast í eftir því sem vefurinn þróast. Vefurinn er einfaldur í notkun sýnir staðsetningu notanda á korti í rauntíma.

Leiðum fylgja gagnlegar upplýsingar, til að mynda um erfiðleikastig og tímalengd, og getur notandi jafnframt séð eigin staðsetningu á korti og fylgt leið í rauntíma. Á síðunni er góð leitarvél og hægt er að sía eftir ýmsum breytum á borð við sveitarfélag, aðstöðu, þjónustu og aðgengi. Vefurinn, sem er bæði á íslensku og ensku, er samstarfsverkefni SSH og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins.

Aukin hreyfing og nýting á grænum svæðum

„Eitt af leiðarljósum sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins er að stuðla að heilnæmu umhverfi og heilbrigðu lífi. Í því ljósi ákváðum við að þróa og setja upp vandaðan útivistarvef sem gefur yfirsýn yfir þá fjölbreyttu útivistarmöguleika sem höfuðborgarsvæðið býður upp á. Þeir verða þannig bæði sýnilegri og aðgengilegri fyrir íbúa. Við vonumst innilega til að vefurinn stuðli að aukinni hreyfingu, ánægju og nýtingu á grænum svæðum,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH.

Páll Björgvin bendir á að Út um allt tengist fleiri verkefnum sem stuðla að markmiðum sóknaráætlunarinnar, til að mynda Kortlagningu útivistarsvæða á höfuðborgarsvæðinu sem lauk árið 2023. Vefurinn er einnig tengdur samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og þeirri umfangsmiklu uppbyggingu hjóla- og göngustíga sem þar er kveðið á en síðan er hönnuð til að nýta hjóla- og göngustíganet höfuðborgarsvæðisins til framtíðar.

„Við munum nú halda áfram að þróa Út um allt og bæta við leiðum og skemmtilegum svæðum. Við hvetjum alla til þess að nýta sér vefinn og fara út og njóta náttúrunnar sem umvefur höfuðborgarsvæðið,“ segir Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins.

Inga Hlín Pálsdóttir og Páll Björgvin Guðmundsson.
Inga Hlín Pálsdóttir og Páll Björgvin Guðmundsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert