Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, er ótrúlega skemmtileg borg sem má segja að skipt sé í tvennt af ánni Danube sem liðast um hana miðja. Áin er sú næststærsta í Evrópu á eftir ánni Volgu og rennur í gegnum tíu lönd.
Borgarhlutarnir tveir, sitt hvoru megin við ána, bera nöfnin Búda og Pest, Búda vestan megin en Pest austan megin. Það er einmitt austan megin við ána sem kaffihúsið New York Café stendur, nánar tiltekið við Erzsébet-götuna.
Um aldarmótin 1900 var kaffihúsið eitt það vinsælasta á götum Búdapestar, líkt og fram kemur á vefsíðu New York Café. Rithöfundar og ritstjórar sóttu mikið þangað og áhrifamestu dagblöðunum var stýrt á efri hæð hússins.
Eftir síðari heimsstyrjöldina fór kaffihúsið í niðurníðslu, þjónaði um tíma sem íþróttavöruverslun en hóf aftur starfsemi sem kaffihús 1954 undir nafninu Hungária, eða Ungverjaland.
Það var svo árið 2006 sem kaffihúsið, sem er í ítölskum endurreisnarstíl, var gert upp á sinn upprunalega máta. Smáatriðin í byggingunni innanverðri eru nær óaðfinnanleg.
Í dag er í byggingunni hótelrekstur, kaffihúsið sjálft og bar. Kaffihúsið státar af matseðli með áherslu á austurríska-ungverska matargerð; nautagúllas, vínarsnitsel og grillað fois gras, svo eitthvað sé nefnt. Þar er einnig að finna fræga eftirrétti eins og Dobos, tertu sem samanstendur af svampkökulögum með súkkulaðismjökremsfyllingu og toppaðri með karamellu, Zacher, austurrískri súkkulaðiköku, og Eszterházy-köku.
Þess má geta að kaffihúsið er með fjórar stjörnur á Tripadvisor. Þannig má með sanni segja að heimsókn á kaffihúsið sé nauðsynlegur hluti af ferðalaginu til Búdapestar og þar sem aðsókn er gríðarleg er um að gera að athuga með borðapantanir í tíma.