Ferðavefur The Telegraph tekur sjálfstætt út hótel víðs vegar um heim. Iceland Parliament-hótelið fékk eina slíka úttekt ekki alls fyrir löngu og skoraði níu af tíu mögulegum.
Hótelið er staðsett á Landsímareitnum við Austurvöll. Hótelið, sem hét áður Icelandair Hotels, var opnað í lok desember 2022.
Heildarfjöldi herbergja er 163 og þar er einnig að finna háklassa veitingastað, heilsulind og almenningsrými sem prýdd eru nútímalist.
Staðsetning: Hótelið fær tíu í einkunn fyrir staðsetningu, vitaskuld í nálægð við áhrifamestu byggingu Íslendinga; Alþingi. Þá eru nefndir staðir sem eru í um fimm mínútna göngufjarlægð frá hótelinu, eins og Tjörnin og Harpa.
Stíll: Níu af tíu mögulegum. Húsið hefur að geyma mikla sögu og hýsti m.a. skrifstofur fyrir stríð og svo var þar fyrsti kvennaskólinn starfræktur, Kvennaskólinn í Reykjavík, en hann var stofnaður 1847 og var á þessum stað til 1909. Húsið fékk yfirhalningu frá ítalska arkitektinum Paolo Gianfrancesco sem starfar fyrir THG Arkitekta, en þó var haldið í upprunalegt útlitið.
Þjónusta og aðstaða: Þetta tvennt fær níu í einkunn. Á hótelinu er m.a. að finna bar, þvottahús, heilsulind með sánu og gufubaði, líkamsrækt og veitingastaðinn Hjá Jóni. The Telegraph tilgreinir sérstaklega aðstöðu og innréttingar í heilsulindinni.
Herbergin: Öll herbergin eru með kaffivélu frá LOR, sérhönnuðum innanstokksmunum, míní-ísskáp, 400 þráða rúmfötum og snyrtivörum á baðherbergjum. Svítur hótelsins snúa að Austurvelli og samhljómur í dökkum við og hvítu keramiki vekur sérstaka hrifningu. Í Parliament-svítunni eru tvö svefnherbergi, baðherbergi, stofa og stórfenglegt útsýni yfir borgina.
Matur og drykkur: Veitingastaður hótelsins er sagður sérstaklega rúmgóður og með fágað yfirbragð. Telebar, sem staðsettur er í móttökunni, býður upp á eigin útgáfu af klassískum kokteilum, auk síðdegiste (e. afternoon tea) á milli tvö og fimm síðdegis. Morgunverður hótelsins fær góða umsögn.
Það sem fær lægstu einkunnina (7/10): Gæði fyrir peninginn, aðgengi fyrir fólk með fötlun og hvort það sé fjölskylduvænt.