Berkshire Hathaway Travel Protection hefur útnefnt Ísland sem öruggasta áfangastaðinn til að ferðast til árið 2025. Fyrirtækið birti nýverið árlega skýrslu sína um öruggustu löndin í heiminum, þar sem Ísland trónir nú á toppnum.
Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að fyrirtækið hafi safnað upplýsingum frá bandarískum ferðalöngum allt frá árinu 2016. Ferðalangarnir svöruðu spurningum um ferðalög síðustu fimm ára og gáfu meðal annars mat á hversu örugg þeir töldu viðkomandi staði vera. Að auki var horft til ýmissa alþjóðlegra vísitalna, svo sem Global Peace Index, Numbeo og GeoSure Global fyrir helstu borgir hvers lands.
Ísland flutti sig upp um heil átta sæti frá árinu 2024, þegar það sat í níunda sæti yfir öruggustu ferðamannastaði. Það er meðal annars rakið til þess að landið sé fámennt og hefi einungis eina stóra hringvegaleið, sem dregur úr hættu á umferðarslysum.
Hins vegar taka höfundar skýrslunnar fram að náttúran geti enn þá verið óútreiknanleg – til dæmis sé Ísland eldfjallaeyja og því megi alltaf eiga von á eldgosum.
„En það reynist erfitt að finna fólk sem lætur gos mikið á sig fá,“ segir í niðurstöðunum og er þar vísað til hinnar afslöppuðu afstöðu margra Íslendinga í garð eldgosa.
Á eftir Íslandi er Ástralía í öðru sæti, síðan Kanada, Írland, Sviss, Nýja-Sjáland, Þýskaland, Noregur, Japan og Danmörk í tíunda sæti. Nánari upplýsingar og heildarlista yfir öruggustu löndin má finna á vefsíðu Berkshire Hathaway Travel Protection, bhtp.com.