Giftu sig í flugvél Play á leið til Parísar

Alexander Valur Wium Brynjólfsson og kærasta hans, Kita, sem er frönsk, fundu ástina fyrir tveimur árum. Í morgun gengu þau hjónaband um borð í flugvél frá flugfélaginu Play en parið gat ekki ákveðið sig hvort þau ættu að giftast á Íslandi eða í Frakklandi. Þau fóru því milliveginn. 

„Við Kita kynntumst fyrir tveimur árum þegar sem ég var að vinna í Raufarhólshelli sem leiðsögumaður. Kita hafði komið til Íslands til að vinna hér á landi en hún var yfir sig ástfangin af Íslandi. Einn daginn var hún var stödd í Raufarhólshelli á sama tíma og ég sem endaði með því að ég bauð henni á deit og við höfum verið saman síðan. Við náðum strax mjög vel saman og tengdum um leið,“ segir Alexander sem er 26 ára leiðsögumaður. 

Hann segir að þau hafi ferðast mikið síðan þau kynntust. 

„Á þessum tveimur árum höfum við bæði ferðast mikið saman, bæði til Frakklands og til annarra landa en einnig innanlands. Við elskum að ferðast. Þegar ég heyrðum um hugmyndina að það væri hægt að gifta sig um borð í þessu flugi hugsuðum við með okkur, af hverju ekki? Þetta passaði bara við öll okkar ævintýri, að gifta okkur í háloftunum á milli Íslands og Frakklands. Svo er þetta bara frekar klikkuð hugmynd og óhefðbundið sem á vel við okkur,“ segir hann en hjónin ætla nú að dvelja í nokkra daga í París og njóta þess að vera ástfangin og nýgift.

„Athöfnin var ótrúlega falleg og skemmtileg og þetta var bara algjör snilld. Nú ætlum við að njóta lífsins í París,“ segir Alexander yfir sig hrifinn. 

Að athöfn lokinni var slegið upp veislu í vélinni enda vakti brúðkaupið kátínu á meðal gestanna. 

„Þau gátu ekki ákveðið hvort þau ættu að gifta sig á Íslandi eða í Frakklandi því hún er þaðan og hann er íslenskur þannig að það var fullkomin lausn að gera þetta einhvers staðar mitt á milli. Þetta var mjög falleg stund og óhætt að segja að ástin hafi legið í loftinu. Fólk í vélinni var svo hissa þegar presturinn, sem var í fullum skrúða gekk niður „kirkjugólfið“ eða ganginn í flugvélinni. Brúðguminn beið við enda gangsins og á eftir prestinum gekk brúðurin. Athöfnin var mjög falleg.  Brúðhjónin fóru með heit til hvors annars og spiluð voru lög sem brúðhjónin höfðu valið. Eftir athöfnina skáluðu gestir fyrir nýgiftu hjónunum sem voru alsæl með daginn sinn. Þetta var bara frábært í alla staði,“ segir Elma Dís Árnadóttir, starfsmaður í markaðsdeild Play sem var farþegi um borð í fluginu.

Alexander og Kita voru gefin saman í vél Play í …
Alexander og Kita voru gefin saman í vél Play í morgun. Ljósmynd/Aðsend
Flugfarþegar voru alsælir að lenda óvænt í brúðkaupsveislu.
Flugfarþegar voru alsælir að lenda óvænt í brúðkaupsveislu. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert