Skíðaparadís Ásdísar Ránar segir sex

Mæðgurnar Ásdís Rán Gunnarsdóttir (t.h.) og Victoría Rán Garðarsdóttir.
Mæðgurnar Ásdís Rán Gunnarsdóttir (t.h.) og Victoría Rán Garðarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Vel er hægt að hugsa út fyr­ir ramm­ann þegar kem­ur að skíðaferðalög­um er­lend­is. Það heyr­ist gjarn­an að Íslend­ing­ar fari í Alp­ana, ým­ist á Ítal­íu, í Frakklandi eða Aust­ur­ríki, en hvað með hin lönd­in eins og Norður­lönd­in, jú, eða Búlgaríu?

Fyrr í fe­brú­ar var fyr­ir­sæt­an, frum­kvöðull­inn og fyrr­ver­andi for­setafram­bjóðand­inn, Ásdís Rán Gunn­ars­dótt­ir, stödd í Borovets Ski Resort í Búlgaríu. Hún er hvorki land­inu né skíðasvæðinu ókunn, en hún var lengi bú­sett í Búlgaríu, er þar í dag með ann­an fót­inn hjá kær­asta sín­um, Þórði Daní­eli Þórðar­syni, og svo hef­ur hún verið dug­leg að kíkja á skíði yfir vetr­ar­tím­ann.

„Ég kom frá Íslandi með dótt­ir mína hana Vict­oríu Rán, í langþráða skíðaferð sem ég var búin að lofa henni síðustu ár en það hef­ur verið erfitt að kom­ast vegna skól­ans,“ seg­ir Ásdís. Með í för var einnig Þórður Daní­el kær­asti Ásdís­ar Rán­ar. 

„Ég valdi Borovetz þar sem það er þægilegra fyrir þá …
„Ég valdi Borovetz þar sem það er þægi­legra fyr­ir þá sem eru ekki langt komn­ir á skíðum.“ Ljós­mynd/​Aðsend

Borovets-skíðasvæðið 

„Við heim­sótt­um skíðasvæðið í Borovets sem er tölu­vert minna en aðalskíðasvæðið sem heit­ir Bansko og er tvo tíma í burtu. Ég valdi Borovets þar sem það er þægi­legra fyr­ir þá sem eru ekki langt komn­ir á skíðum eins og hún [Vict­oría Rán] og það er bara í klukk­stund­ar fjar­lægð frá borg­inni,“ seg­ir Ásdís Rán.

Borovets er í Sofiu-héraðinu, rétt sunn­an við höfuðborg­ina Sofiu, norðan­meg­in í Rila-fjöll­un­um. Borovets er eitt elsta skíðasvæðið í Búlgaríu, það er í 1.350 metra hæð og nær saga þess aft­ur til 1896. Á 20. öld var skíðasvæðið upp­fært nær því sem ger­ist í nú­tím­an­um með hót­el, veit­ingastaði, bari og skíðabrekk­ur vítt og breitt um Rila-fjöll­in. Heims­meist­ara­mótið í skíðaíþrótt­um hef­ur tvisvar sinn­um verið haldið í Borovets, árin 1981 og 1984.

Victoría Rán í langþráðri skíðaferð með Ásdísi, móður sinni og …
Vict­oría Rán í langþráðri skíðaferð með Ásdísi, móður sinni og Þórði Daní­eli. Ljós­mynd/​Aðsend

Á svæðinu má finna einn kláf sem fer um 4,8 kíló­metra upp í rúm­lega 1.054 metra hæð. Þar eru einnig fjór­ar stóla­lyft­ur, þrjár fjög­urra manna og ein sex manna. Sú sem fer hæst er Ya­stre­bets Express-lyft­an og er hækk­un 609 metr­ar. Sú sem fer lengst er Sitnya­kovo Express sem fer 1.786 metra leið þótt hækk­un­in sé ekki nema 439 metr­ar. Á svæðinu eru sjö tog­lyft­ur, sú sem fer styst fer 180 metra en sú sem fer lengst fer rétt rúm­lega einn kíló­metra. Hækk­un er mis­mun­andi og nokkuð ljóst að þar eru byrj­enda­lyft­ur sem og lyft­ur fyr­ir lengra komna.

Fjöldi skíðaleiða er mun meiri en lyft­urn­ar og eru þær frá græn­um, sem eru meira aflíðandi fyr­ir byrj­end­ur, yfir í svart­ar, fyr­ir þá sem eru þaul­van­ir.

Hvernig var snjór­inn?

„Snjór­inn var mjög þægi­leg­ur og brekk­urn­ar voru í topp­st­andi. Sól­in skein al­veg eins og á að vera í góðri skíðaferð.“

„Snjórinn var mjög þægilegur og brekkurnar voru í topp standi.“
„Snjór­inn var mjög þægi­leg­ur og brekk­urn­ar voru í topp standi.“ Ljós­mynd/​Aðsend

Aðstaðan og þjón­usta

Fjöldi hót­ela er á svæðinu, mis­jöfn að gæðum, frá tveggja og upp í fimm stjörnu hót­el. Verðið á nótt­ina fer á und­ir 10.000 kr. fyr­ir hjón í tveggja stjörnu gist­ingu og upp í rúm­ar 30.000 kr. fyr­ir fimm stjörnu gist­ingu. Þá er einnig hægt að finna aribnb-íbúðir í Borovets.

Í Borovets er hægt að bóka sig í skíða- og bretta­skóla, þá er hægt að bæta „freestyle“-hæfi­leik­ana í svo­kölluðum skemmtig­arði eða Fun Park Borovets. Borokids Snow Park er ætlaður börn­um fjög­urra ára og eldri og þar eru þau á sér­stöku barna­svæði með skíðakenn­ara. Dæmi um verð fyr­ir klukku­stund á barn með skíðakenn­ara eru 30 búl­görsk lef eða rúm­ar 2.200 kr. Svo eru næt­ur­skíðin í Borovets spenn­andi kost­ur en þá er hægt að renna sér í upp­lýst­um brekk­un­um milli kl. 18:30 og 22:00 á kvöld­in.

Skíða- og bretta­leiga er á svæðinu og hægt er að leigja full­an búnað eða ein­staka hluti sem upp á vant­ar til að full­komna skíðaæv­in­týrið. Þá er einnig hægt að leigja búnað til eins dags eða í nokkra daga. Sem dæmi má nefna að skíði, staf­ir og skór í sex daga kosta 190 búl­görsk lef eða rúm­ar 14.300 kr. á nú­ver­andi gengi og snjó­bretti og skór í sex daga kosta 180 búl­görsk lef eða um 13.500 kr.

Fjöldi annarra val­mögu­leika er í boði sem hægt er að kynna sér á heimasíðu skíðasvæðis­ins. 

En hvað er ómiss­andi á skíðum? 

„Nú það eru skipt­ar skoðanir á því en fyr­ir drottn­ingu eins og mig þá er það góða skapið ásamt góðum fé­lags­skap, millj­ón doll­ara skíðagalli, sól og smá Jagerma­ster,“ seg­ir Ásdís að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert