Vel er hægt að hugsa út fyrir rammann þegar kemur að skíðaferðalögum erlendis. Það heyrist gjarnan að Íslendingar fari í Alpana, ýmist á Ítalíu, í Frakklandi eða Austurríki, en hvað með hin löndin eins og Norðurlöndin, jú, eða Búlgaríu?
Fyrr í febrúar var fyrirsætan, frumkvöðullinn og fyrrverandi forsetaframbjóðandinn, Ásdís Rán Gunnarsdóttir, stödd í Borovets Ski Resort í Búlgaríu. Hún er hvorki landinu né skíðasvæðinu ókunn, en hún var lengi búsett í Búlgaríu, er þar í dag með annan fótinn hjá kærasta sínum, Þórði Daníeli Þórðarsyni, og svo hefur hún verið dugleg að kíkja á skíði yfir vetrartímann.
„Ég kom frá Íslandi með dóttir mína hana Victoríu Rán, í langþráða skíðaferð sem ég var búin að lofa henni síðustu ár en það hefur verið erfitt að komast vegna skólans,“ segir Ásdís. Með í för var einnig Þórður Daníel kærasti Ásdísar Ránar.
„Við heimsóttum skíðasvæðið í Borovets sem er töluvert minna en aðalskíðasvæðið sem heitir Bansko og er tvo tíma í burtu. Ég valdi Borovets þar sem það er þægilegra fyrir þá sem eru ekki langt komnir á skíðum eins og hún [Victoría Rán] og það er bara í klukkstundar fjarlægð frá borginni,“ segir Ásdís Rán.
Borovets er í Sofiu-héraðinu, rétt sunnan við höfuðborgina Sofiu, norðanmegin í Rila-fjöllunum. Borovets er eitt elsta skíðasvæðið í Búlgaríu, það er í 1.350 metra hæð og nær saga þess aftur til 1896. Á 20. öld var skíðasvæðið uppfært nær því sem gerist í nútímanum með hótel, veitingastaði, bari og skíðabrekkur vítt og breitt um Rila-fjöllin. Heimsmeistaramótið í skíðaíþróttum hefur tvisvar sinnum verið haldið í Borovets, árin 1981 og 1984.
Á svæðinu má finna einn kláf sem fer um 4,8 kílómetra upp í rúmlega 1.054 metra hæð. Þar eru einnig fjórar stólalyftur, þrjár fjögurra manna og ein sex manna. Sú sem fer hæst er Yastrebets Express-lyftan og er hækkun 609 metrar. Sú sem fer lengst er Sitnyakovo Express sem fer 1.786 metra leið þótt hækkunin sé ekki nema 439 metrar. Á svæðinu eru sjö toglyftur, sú sem fer styst fer 180 metra en sú sem fer lengst fer rétt rúmlega einn kílómetra. Hækkun er mismunandi og nokkuð ljóst að þar eru byrjendalyftur sem og lyftur fyrir lengra komna.
Fjöldi skíðaleiða er mun meiri en lyfturnar og eru þær frá grænum, sem eru meira aflíðandi fyrir byrjendur, yfir í svartar, fyrir þá sem eru þaulvanir.
Hvernig var snjórinn?
„Snjórinn var mjög þægilegur og brekkurnar voru í toppstandi. Sólin skein alveg eins og á að vera í góðri skíðaferð.“
Fjöldi hótela er á svæðinu, misjöfn að gæðum, frá tveggja og upp í fimm stjörnu hótel. Verðið á nóttina fer á undir 10.000 kr. fyrir hjón í tveggja stjörnu gistingu og upp í rúmar 30.000 kr. fyrir fimm stjörnu gistingu. Þá er einnig hægt að finna aribnb-íbúðir í Borovets.
Í Borovets er hægt að bóka sig í skíða- og brettaskóla, þá er hægt að bæta „freestyle“-hæfileikana í svokölluðum skemmtigarði eða Fun Park Borovets. Borokids Snow Park er ætlaður börnum fjögurra ára og eldri og þar eru þau á sérstöku barnasvæði með skíðakennara. Dæmi um verð fyrir klukkustund á barn með skíðakennara eru 30 búlgörsk lef eða rúmar 2.200 kr. Svo eru næturskíðin í Borovets spennandi kostur en þá er hægt að renna sér í upplýstum brekkunum milli kl. 18:30 og 22:00 á kvöldin.
Skíða- og brettaleiga er á svæðinu og hægt er að leigja fullan búnað eða einstaka hluti sem upp á vantar til að fullkomna skíðaævintýrið. Þá er einnig hægt að leigja búnað til eins dags eða í nokkra daga. Sem dæmi má nefna að skíði, stafir og skór í sex daga kosta 190 búlgörsk lef eða rúmar 14.300 kr. á núverandi gengi og snjóbretti og skór í sex daga kosta 180 búlgörsk lef eða um 13.500 kr.
Fjöldi annarra valmöguleika er í boði sem hægt er að kynna sér á heimasíðu skíðasvæðisins.
En hvað er ómissandi á skíðum?
„Nú það eru skiptar skoðanir á því en fyrir drottningu eins og mig þá er það góða skapið ásamt góðum félagsskap, milljón dollara skíðagalli, sól og smá Jagermaster,“ segir Ásdís að lokum.