Fanney Helga Óskarsdóttir 22 ára nemandi við Háskólann í Reykjavík fór í eftirminnilega ferð um áramótin þar sem hún sigldi um þjóðgarðana Telascica og Kornati í Króatíu ásamt fjölskyldu sinni. Sá síðarnefndi samanstendur af yfir 80 eyjum en Telascica-þjóðgarðurinn er þekktur fyrir stórbrotið landslag og fallega blátt haf. Hún segir að lífið sé eins og ólgandi haf og það að fara í svona siglingu stækki sjóndeildarhringinn.
„Fyrir nokkrum árum tók pabbi upp á því að fá sér smáskiparéttindi en þá átti hann lítinn bát í Reykjavík. Svo mörgum árum seinna fékk hann þá geggjuðu hugmynd að leigja bát í viku og sigla honum á milli eyjanna í Króatíu, í framhaldinu af því fór mikil vinna í fræðslu og að finna hinn fullkomna bát. Mamma vildi ekki fara í þessa ferð án skipstjóra og pabbi vildi ekki fara nema að hann væri skipstjórinn, kannski taka það fram að pabbi er með litla sem enga reynslu og hvað þá á svona stórum bát,“ segir Fanney.
Úr varð að Óskar Jónsson, faðir Fanneyjar, tók að sér að sigla bátnum sem gerði ferðina eftirminnilega og ógleymanlega.
„Við enduðum á að bóka skútu með fjórum hjónaherbergjum, fjórum baðherbergjum, útisturtu, sólbekkjum, stofu og þó nokkuð stóru eldhúsi. Pabbi fékk að vera skipstjórinn og við hin vorum áhöfnin,“ segir hún og segir að ferðin hafi fengið vonum framar.
„Það gekk vel að sigla bátnum, pabbi stóð sig vel og áhöfnin enn betur. Við sigldum á daginn þangað til við fundum fallegan stað sem við vildum vera á yfir nóttina. Það er í raun ekkert rosalega mikið að gera á svona bát annað en að hoppa og leika í glærum sjó, snorkla, spila, chilla, lesa og kasta kexi í sjóinn og fylgjast með þúsund fiskum ráðast á það.“
Hvað einkenndi ferðina þína?
„Það sem einkenndi ferðina er hvað þetta var mikið ævintýri, að skoða nýja staði, skoða smábæi á litlum eyjum, finna veitingastaði úti á miðjum sjónum, að læra að sigla skútunni og allt sem fylgir henni. Sem betur fer vorum við alltaf umkringd fullt af bátum sem voru meira en tilbúnir að hjálpa til þegar þess þurfti. Við fórum í sambærilega ferð fyrir tveimur árum svo reynslubankinn var sem betur fer stærri og það gekk allt miklu betur.“
Hvað var eftirminnilegast við ferðina?
„Það sem er eftirminnilegast úr ferðinni er líklegast þegar það festist reipi í skrúfunni á bátnum og ég hélt í alvörunni að við værum búin að eyðileggja bátinn og föst út á sjó, það er mjög stutt í kvíða í svona bátsferð, eina sekúnduna er maður að chilla og næstu er allt í rugli og einhver svaka krísa í gangi. Svo var líka mjög eftirminnilegt þegar það kom ísbátur að selja ís á milli bátanna.“
Hver var besti matur sem þú borðaðir á ferðalaginu?
„Besti matur ferðarinnar var á einhverri lítilli eyju sem lítur út fyrir að vera beint úr bíómynd. Maturinn er líka eitthvað betri þegar það þarf að fara á litlum bát á eyju, sem gerir ferðina svo mikið ævintýri. Við pöntuðum okkur salöt og hamborgara sem var það girnilegasta sem ég hef séð og smakkað.“
Hvaða ferðalög eru á dagskrá hjá þér?
„Það eru í raun ekki mikil ferðalög á dagskránni hjá mér á næstunni nema fjölskylduferð til Parísar yfir helgi sem ég er ótrúlega spennt fyrir. Við stefnum á að fara til Ítalíu í sumar en von er á fyrsta barnabarnið fjölskyldunnar á svipuðum tíma svo ekki er hægt að áætla hvenær ferðin verður.“
Hvernig ferðalög ertu hrifnust af?
„Mín uppáhaldsferðalög eru ferðir til nýrra og framandi landa sem hafa allt öðruvísi menningu en við Íslendingar, það er líka mjög mikilvægt að hafa blöndu af slökun og ævintýrum. Ég er svo heppin að foreldrar mínir hafa sýnt mér þó nokkuð af heiminum, fjölbreytt lönd og menningu og er Suður-Afríka mjög ofarlega á þeim lista í uppáhaldi. Ég er mjög þakklát fyrir foreldra mína og ferðalögin sem þau hafa boðið mér í.“