Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali eins og hann er kallaður, hefur bætt nýjum starfstitli í safnið; hann er orðinn fasteignasali hjá Novus Habitat á Spáni. Hann greindi frá þessu í skemmtilegu myndskeiði sem hann deildi á Instagram-síðu sinni um helgina.
Svali hefur verið búsettur á uppáhaldsstað Íslendinga, paradísareyjunni Tenerife, ásamt fjölskyldu sinni frá árinu 2018 og rekið ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í ferðum til sólríku eyjunnar. Einnig hefur hann haldið úti hlaðvarpsþættinum TeneCast þar sem hann ræðir við fólk sem hefur flust búferlum til Tenerife, en fjöldi Íslendinga býr á svæðinu.
„Spánn bíður - ert þú klár?“ skrifar hann við myndskeiðið sem gefur góða innsýn í lífið sem bíður áhugasamra fasteignakaupenda á Spáni, en í myndskeiðinu sést Svali spila padel, slá holu í höggi og kæla sig niður með einum ísköldum bjór.
Í pistli sem birtist á vef Smartlands árið 2019 sagðist Svali sjaldan hafa verið jafn hamingjusamur og eftir að hann flutti ásamt fjölskyldu sinni til Tenerife.
„Ég get svo svarið því að suma daga geng ég um göturnar og hugsa hver fjandinn: Vá hvað þetta er búið að vera mergjað ævintýri. Miklu fleiri góðir dagar en slæmir. Velti því stundum fyrir mér að það hljóti að hafa verið einhver heillastjarna með okkur í þessu öllu, en leiði hugann líka að því hvort búast megi við einhverjum skelli á næstunni. Það hljóti bara að vera fyrst manni líður svona vel núna.
Eða má kannski reikna með því að manni líði alltaf svona vel? Ef til vill er það kvíða„elementið“ í mér eða óöryggisfaktorinn minn sem þarna nartar. En hvað sem því líður þá eru þessi misseri frábær. Af hverju svona frábær? Sennilega vegna þess að núna eru eldri drengirnir orðnir mun sáttari við að vera hér heldur en var í lok sumars, hafa eignast vini og lífið því eðlilegra. Þegar svona umbreytingar eiga sér stað þá verður þetta daglega í lífinu allt öðruvísi og það tekur tíma að aðlagast þannig að allt verði aftur venjulegt.“