Helgi Jean hitti æskuhetjuna í hugleiðslutíma á Balí

Helgi Jean átti ævintýralegar stundir á Balí.
Helgi Jean átti ævintýralegar stundir á Balí. Samsett mynd

Helgi Jean Claessen, hlaðvarpsstjórnandi og lífsþjálfi, skellti sér til Balí í sannkallaða ævintýraferð nú á dögunum. Þar hitti hann æskuhetja sína, bandarísku hasarstjörnuna og bardagalistamanninn Steven Seagal, í miðjum hugleiðslutíma á indónesísku eyjunni.

„Það var ótrúlega skondið að vera staddur í leiddri hugleiðslu og sjá síðan gömlu hasarmyndahetjuna sína mætta upp úr þurru. Ég get ekki sagt að ég hafi búist við honum þarna.”

Helgi tók ákvörðun um að gjörbreyta lífi sínu fyrir örfáum árum og hefur verið á andlegu ferðalagi, í anda Eat, Pray Love, þar sem hann hefur kynnst nýjum hliðum á sjálfum sér og opnað hjarta sitt fyrir nýjum tækifærum og upplifunum.

Hvernig var upplifunin af Balí?

„Ég get vel skilið af hverju fólk dregst að Balí upphaflega en tilfinningin er að eyjan sé uppseld. Það er sjálfsagt hægt að finna fína staði til að vera á og fólkið er vingjarnlegt. Mér var hins vegar sagt að það hefði orðið sprenging þarna eftir kórónuveirufaraldurinn í fólksfjölgun. Það er verið að byggja á fullu en innviðirnir eru ekki að fylgja með. Það er orðin rosaleg traffík á götunum og svo er talsvert um plast og rusl á ströndunum.”

Myndirðu þá ekki mæla með Balí?

„Það er ábyggilega hægt að kaupa fínar pakkaferðir þangað í vernduðu umhverfi - en miðað við hversu margar fínar strendur maður flýgur yfir á leiðinni - þá er sjálfsagt hægt að finna minna pakkaðan stað.”

Helgi gaf fylgjendum sínum innsýn í ferðalagið á Instagram-síðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert