Estelle Keeber var einstæð móðir á fertugsaldri sem var nýhætt með kærasta sínum til þriggja ára. Hún sárlega þurfti á tilbreytingu að halda þannig að hún skipulagði ferð með vinkonu sinni til Spánar.
„Ég hafði alltaf verið forvitin um nektarstrendur og hvernig maður gæti bara verið maður sjálfur, án allra filtera og fata. Allir keppirnir til sýnis,“ segir Keeber í viðtali við Daily Mail.
„Svo fór ég til Spánar og sá hvað allir voru afslappaðir með líkamann sinn og virtust sælir. Ég hafði unnið mikið á samfélagsmiðlum og var mjög meðvituð um þrýstinginn sem maður upplifir um að allt þurfi að vera fullkomið, sýna sýnu bestu hliðar. Slíkt getur verið afar skaðlegt fyrir andlega heilsu. Ég byrjaði á að vera berbrjósta líkt og algengt er víða í Evrópu. Það var frelsandi.“
„Það var samt síður en svo auðvelt að afklæðast alveg. Við vinkonurnar erum aldar upp í Bretlandi þar sem fólk er frekar lokað og íhaldsamt. Þarna sátum við í sandinum og reyndum að telja í okkur kjark. Svo afklæddumst við, hlógum og hlupum í sjóinn. Þetta var ólýsanleg tilfinning. Það að finna sjó og vind umlykja líkamann var svo hressandi og upplífgandi. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér annað eins. Við vorum naktar það sem eftir lifði dags.“
„Þetta var eins og að ég hefði fundið svarið við öllum lífsins gátum. Ég hugsaði einnig til ömmu minnar sem lagði alltaf mikla áherslu á að lifa lífinu til fulls og skeyta engu um álit annarra. Hún hefði sko haft gaman af þessu uppátæki hjá mér.“
„Þegar ég kom aftur heim þá sagði ég öllum frá þessu. Margir voru hissa en mér var alveg sama. Þetta var mín leið til þess að fanga mitt raunverulega sjálf og vera trú sjálfri mér.“
„Ég vona að ég geti verið góð fyrirmynd fyrir börnin mín og aðra. Ég held áfram að sækja nektarstrendur þegar vel stendur á því þetta er svo gott fyrir sálina. Allir ættu að prófa.“