Algengt er að fólk haldi að ódýrara sé að bóka flug á síðustu stundu. Ferðasérfræðingur segir í viðtali við The Mirror að málið sé ekki endilega svo einfalt.
Gavin Lapidus, stjórnandi hjá eShores, segir að ekki sé hægt að treysta á að fá góð tilboð með skömmum fyrirvara.
„Það er alltaf best að bóka með miklum fyrirvara. Stundum getur maður rekist á góð tilboð með skömmum fyrirvara en það fer algjörlega eftir því hversu mörg sæti eru laus um borð í vélinni.“
„Stundum eru fá sæti laus og eftirspurn mikil og þá hækkar verðið. Stundum geta poppað upp skynditilboð en það er erfitt að skipuleggja fríin sín í kringum slíka heppni og fáir myndu mæla með því.“
„Hin almenna viðmiðunarregla er að bóka flug innan Evrópu með tveggja til þriggja mánaða fyrirvara til þess að fá bestu verðin. Lengri flug eins og til Bandaríkjanna eða Asíu ættu að bókast innan fjögurra til sex mánaða. Þá ef ætlunin er að ferðast yfir háanna tíma eins og jól eða sumar þá er best að bóka með sex til tólf mánaða fyrirvara.“
„Oft má fá góð verð á flugi ef ferðast er utan háannatíma en öruggast er þá að bóka með mánaðarfyrirvara. Þá hafa rannsóknir sýnt að best sé að bóka í miðri viku, á þriðjudögum eða miðvikudögum en flugfélög koma oft með tilboð eftir helgi. Þá er einnig gott að bóka árla morguns eða seint að kvöldi til en þá eru færri á netinu að leita að flugi. Ódýrast er að fljúga á þriðjudegi eða miðvikudegi frekar en á föstudegi eða sunnudegi þar sem flestir vilja ferðast í kringum helgarnar.“