Kristín Mariella Friðjónsdóttir, rithöfundur sem heldur úti vef og Instagram-síðu undir nafninu Respectful Mom, mælir með barnvænu skíðahóteli og svæði í Japan fyrir fylgjendur sína. Fjölskyldan hefur heimsótt staðinn þrisvar sinnum.
Kristín er búsett í Tókýó ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum. Hún segir fjölskylduna hafa prófað nokkur skíðasvæði í Japan en þau hafi valið þennan stað síðustu ár. Kristín segist fá gríðarlega margar fyrirspurnir frá fylgjendum sínum um góð skíðasvæði í Japan en rúmlega 180 þúsund manns fylgja henni á Instagram.
„Ég fæ alltaf spurningar um hvar sé best að skíða í Japan. Við höfum prófað marga mismunandi staði en það sem hentar allri fjölskyldunni, líka eiginmanni mínum sem er mjög lunkinn á skíðum, þá höfum við ekki fundið neitt betra en Hoshino Resorts Tomamu,“ skrifar hún á Instagram. Þá segir hún þau alltaf gista á hóteli sem heitir Risonare.
Kristín er dugleg að deila lífinu í Japan með fylgjendum sínum á Instagram.