Þorbjörg Marinósdóttir, eða Tobba Marinós, er nýkomin úr ævintýraferð til eyjarinnar Curacao í Karíbahafinu. Hún hefur ferðast til ýmissa framandi staða, en segir fáa vera eins og þennan. Halla Fróðadóttir, vinkona Tobbu sem búsett er í Curacao, hafði skipulagt túrinn fyrir fimmtán kvenna vinahóp og gerði ævintýrið ógleymanlegt. Stangveiði og strendur var eitthvað sem stóð upp úr en hins vegar var tíminn sem hópurinn átti saman mikilvægastur.
Tobba er fertug og starfar sem upplýsingafulltrúi í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Hún er nýkomin úr níu daga, æsispennandi ferð til Karíbahafsins, þangað sem hún fór ásamt hópi af vinkonum.
„Ein úr vinahópnum [Halla Fróðadóttir] flutti tímabundið til Curacao vegna vinnu og ég er svo heppin að það eru mjög skipulagsglaðar konur í þessum hópi sem létu heldur betur til sín taka við að skipuleggja heimsókn um leið og sú brottflutta uppljóstraði um áform sín,“ svarar Tobba þegar hún er spurð hvernig ferðin hafi komið til.
„Hún átti aldrei séns gegn okkur blessunin og tók á móti okkur sólkysst og geislandi og gaf okkur tíma sinn svo fallega. Mér finnst tíminn vera ein dýrmætasta gjöfin. Hann er það sem ég óska mér mest að eiga meira af og ég met það mjög mikils þegar fólk gefur tíma sinn. Tími er munaður sem ég reyni að ráðstafa vel og þessi ferð var sannarlega hverrar mínútu virði.“
„Curacao er hluti af hollensku Karíbahafseyjunum ásamt Aruba og Bonaire,“ segir Tobba og bætir við að eyjan sé þekkt fyrir marga góða eiginleika eins og litadýrð og fjölbreytni, ekki nóg með það heldur er hún fræg fyrir fallegar strendur, kóralrif, sögulegan arkitektúr og fjölbreytt menningarlíf.
„Það grípur strax augað að byggingar á eyjunni eru flestar málaðar í skærum litum og er höfuðborgin Willemstad ákaflega litrík.“
Í þessu samhengi nefnir Tobba að á Curacao sé óskrifuð regla að hús megi ekki vera máluð algjörlega hvít, sem getur ekki verið annað en ótrúlega skemmtilegt.
„Þessi hefð á rætur að rekja til hollensks seðlabankastjóra, Albert Kikkert, sem var við völd á 19. öld. Albert þessi þjáðist af mígreni og hélt því fram að skært sólarljósið endurkastaðist of mikið af hvítum húsum og ýfði upp mígrenið. Hann gaf því út þá tilskipun að hús yrðu að vera máluð í sterkum litum eins og gulum, bláum, grænum og bleikum til að draga úr endurkasti sólarljóss. Síðar kom í ljós að Berti karlinn átti hlut í málningarfyrirtæki. Engu að síður hefur litagleðin á eyjunni haldist og höfuðborgin Willemstad er á heimsminjaskrá UNESCO meðal annars vegna litríkra nýlendubygginganna.“
Til að komast til eyjunnar flaug hópurinn frá Íslandi til Amsterdam og þaðan í tíu tíma flugi beint til Curacao. „Það var ansi harður sprettur að ná á milli véla á leiðinni út.“
Tobba segir hæg heimatökin að taka flug frá Amsterdam þar sem eyjan er hollensk nýlenda og er því afar vinsæl meðal Hollendinga svo þangað fljúga þrjár stórar vélar á hverjum degi.
„Við fórum fimmtán saman. Þetta var bræðingur úr nokkrum hópum, meðal annars úr veiðihópum, svo það var snemma ljóst að sjóstöng væri hluti af dægradvölinni.“ Sjálf komst Tobba þó ekki á sjóstöng þar sem hún var að jafna sig eftir lungnabólgu og sat því hjá þegar vinkonur hennar „æddu“ út á sjó og drógu í soðið.
Tobba segir þær meðal annars hafa veitt tígur sjávarins, barracuda, sem þarfnast sérstakrar meðhöndlunar svo óhætt sé að borða hann.
„Heimasætan [Halla Fróðadóttir] og fjölskylda hennar grilluðu svo aflann og þar á meðal ferskan túnfisk og maður minn þvílíkt lostæti. Fiskurinn var grillaður í steikum og skorinn í litlar sneiðar. Borinn fram með kaldri sósu, mangósalsa, fersku salati og hrísgrjónum. Algjörlega stórfengleg veisla og ég get með sanni sagt að betri fisk hef ég aldrei fengið. Salt, pipar og grillað af snilld.“
Spurð um hvað hafi verið skemmtilegast í ferðinni er Tobba fljót til svars.
„Heimasætan Halla er ævintýralega skemmtileg. Hún var búin að finna alls kyns dægradvöl og hver dagur var ævintýri.“
Tobba lýsir því þegar hópurinn sigldi út á litla friðaða eyju með fagurbláan sjóinn allt um kring. „Þeim tærasta sem ég hef séð.“
Þær heimsóttu fjölda ólíkra stranda og borðuðu á frábærum veitingastöðum. Þær fengu einnig heilmikla útrás fyrir veiðidelluna og veiddu á sjóstöng og flugu. Í 25 stiga hita var spilað paddel, sem er tegund af tennis, mexíkönsk að uppruna, og mikið hlegið.
„Halla var meðal annars búin að leigja risastóran uppblásinn kút með botni sem við drógum út á sjó þar sem við settum niður akkeri. Þar lágum við í sólbaði, úti á Karíbahafi. Þvílík veisla! Og veðrið var fullkomið, 25-30 gráður alla daga og sól.“
Vinkonurnar gistu á Villa Tokara-hótelinu sem Tobba segir hafa verið yndislegt og þjónustan á persónulegum nótum, enda voru þær einu gestir hótelsins á þessum tíma. Á Villa Tokara er engin hefðbundin gestamóttaka að sögn Tobbu, en engu að síður hafi þjónustan verið tipp topp.
„Það er mikið af „bútík“-hótelum, sem eru uppgerð hús í litríkum og afslöppuðum stíl víða um höfuðborgina.“ Með „bútík“ á Tobba við lítil og stílhrein hótel sem eru einstök hvað varðar hönnun, staðsetningu og persónulega þjónustu.
„Við leigðum eitt slíkt og vorum því allar saman með eitt stórt hús og í göngufæri við strönd, veitingastaði og miðbæinn. Það er lítið um verslanir svo við gátum alveg sleppt því að eyða tíma í slíkt og notið eyjunnar betur.“
Sjálf er Tobba ekki ókunn Suður-Ameríku eða öðrum framandi stöðum en hún var skiptinemi í Brasilíu á sínum tíma og hefur ferðast nokkuð oft til Balí við strendur Indónesíu. „Svo ég bjóst við að Curacao væri eitthvað í átt við þá upplifun en hún hefur sterk karakterenkenni sem ég hef ekki upplifað áður.“
Tobba lýsir umhverfinu á borð við að sjá flamingóa á vappi í vegköntum, herragarða í niðurníðslu og öll litríku húsin sem komið var inn á fyrr í viðtalinu.
„Þarna hittum við sölumann sem lagði okkur lífsreglurnar og sagði hann að til að ná árangri þurfi ekki langa söluræðu heldur kærleika og hlýju.“
Hún segir hvern dag hafa verið meiriháttar uppgötvun í þessum frábæra félagsskap og að allir „litlu hlutirnir“, eins og að fá sér morgunkaffi, hafi orðið að ævintýri.
„Ji, hvað ég er góð týpa eftir þessa ferð. Jafnvel rauð viðvörun sem tók við þegar heim var komið varð hálf bleik því sáttin í sálinni er svo mikil,“ segir Tobba að lokum.