„Ég fékk tilbúna Taílandsferð frá honum í afmælisgjöf“

Aron Can og Erna María Björnsdóttir með soninn.
Aron Can og Erna María Björnsdóttir með soninn. Ljósmynd/Aðsend

Flugfreyjan Erna María Björnsdóttir varði janúarmánuði í Taílandi með kærasta sínum Aroni Can og tveggja ára syni þeirra, Theo Can.

„Við Aron erum búin að vera saman í að verða níu ár og höfum á þeim tíma verið mjög dugleg að ferðast. Við fórum til Srí Lanka með fjölskyldunni minni árið 2018 og eftir það höfum við oft talað um að fara tvö saman í svipað frí. Þegar Theo varð sex mánaða þá byrjuðum við að skoða staði sem okkur langaði að ferðast til og fórum á fyrsta fundinn okkar með Kilroy. Þar sem ég hafði farið tvisvar sinnum áður til Taílands þegar ég var yngri fannst mér það vera fullkomin staður fyrir okkur fjölskylduna að fara til, en við gerðum ekki mikið meira í þessu á þeim tíma.

Það var svo á afmælisdaginn minn, 26.júní, þegar við Aron vorum stödd í New York að ég fékk tilbúna Taílandsferð frá honum í afmælisgjöf. Hann hafði planað ferðina frá A-Ö í samstarfi við Kilroy, svo að sjö mánuðum síðar fórum við í mánaðarlangt ferðalag um Taíland með Theo sem þá var orðinn 21 mánaða. Theo hefur ferðast mikið með okkur og þetta var sjötta utanlandsferðin hans, svo að við vorum frekar örugg að fara með hann í þetta sólarhings langa ferðalag, sem gekk svo eins og í sögu. Bæði ferðalagið og dvölin úti gengu mjög vel með hann en við tókum með okkur nóg af bókum, límmiðabókum, bílum og ferðahátalara, sem reyndist okkur vel.“

Erna María, Theo Can og Aron Can.
Erna María, Theo Can og Aron Can. Ljósmynd/Aðsend

Hvert fóru þið í Taílandi?

„Við vorum samtals í 31 dag í Taílandi, og byrjuðum ferðina á viku í Phuket, á strönd sem heitir Kata. Næst fórum við yfir til Krabi en það tekur um þrjár klukkustundir að keyra þangað frá Phuket. Við áttum að vera þar í tíu daga, en enduðum á smá ævintýraleiðangri yfir á eyjuna Koh Lanta, sem við kolféllum fyrir. Við gistum þar í sjö nætur og hefðum líklega geta verið þar lengur. Eftir það fórum við aftur til Phuket, og þá á Karon strönd þar sem við vörðum restinni af ferðinni. Allar bílferðir og bátsferðir voru planaðar fyrirfram af Kilroy sem sem var mjög þægilegt. Ferðalagið varð því frekar auðvelt og þurftum við ekki að plana langar bílferðir hér og þar.“

Hér eru feðgarnir Aron Can og Theo Can en sá …
Hér eru feðgarnir Aron Can og Theo Can en sá litli er orðinn mikill reynslubolti í utanlandsferðum þrátt fyrir ungan aldur. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða staði voru þið ánægðust með?

„Phuket og Koh Lanta stóðu mikið upp úr. Okkur leið mjög vel á báðum stöðum og þótti Rawai svæðið í Phuket vera mjög spennandi og erum við spennt fyrir því að fara þangað aftur einn daginn. Koh Lanta er staður sem við heimsækjum 100% aftur, þessi litla eyja var svo róleg, með fallegum og mjög svo rólegum ströndum, dásamlegum hótelum, ásamt skemmtilegri crossfit stöð og svo var maturinn geggjaður. Fjölskylduvænn og huggulegur staður sem við getum ekki annað en mælt með.“

Erna María naut sín vel í Taílandi en þetta var …
Erna María naut sín vel í Taílandi en þetta var hennar þriðja ferð til landsins. Ljósmynd/Aðsend

Upplifðir þú einhver vonbrigði?

„Það var enginn staður sem olli vonbrigðum, þar sem þetta var allt svo ólíkt og skemmtilegt. En okkur fannst túrisminn og kvöld- eða næturlífið í Krabi frekar óspennandi og þess vegna ákváðum við að fara yfir til Koh Lanta, sem við sjáum ekki eftir. Eins og ég nefndi áðan, þá fannst okkur Rawai svæðið í Phuket mjög skemmtilegt, og þar sem við erum bæði mjög miklir matgæðingar og dugleg að hreyfa okkur, þá átti sá staður vel við okkur. En það er u.þ.b. 15-20 mínútna akstur til Rawai frá Kata strönd og Karon strönd svo að við fórum nánast daglega í crossfit stöð á þessu svæði, fengum okkur að borða og vörðum tíma á ströndunum þar. Öll hótelin sem þau hjá Kilroy bentu okkur á voru mjög barnvæn, með stórum og skemmtilegum leiksvæðum og sundlaugum sem okkur fannst mikill kostur.“

Erna byrjaði daginn iðulega á góðri morgunmatarskál.
Erna byrjaði daginn iðulega á góðri morgunmatarskál. Ljósmynd/Aðsend

Hvert langar ykkur að fara næst saman í fjölskylduferð?

„Góð spurning, ætli við heimsækjum ekki fjölskylduna hans Arons í Tyrklandi í sumar, og svo langar okkur að fara í næsta langa ferðalag til Balí eða Dubai.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert