Sarah Noack, einstæð móðir með þriggja ára gamla stúlku, hefur verið á miklu ferðalagi síðustu ár og heimsótt 20 lönd, bæði í Evrópu og Asíu, ásamt dóttur sinni. Ferðalag mæðgnanna hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum, en þar fylgjast ríflega 80 þúsund manns með ævintýrum þeirra.
Noack, sem er 27 ára gömul, ræddi nýverið við blaðamann Daily Mail og sagði aðeins frá því hvernig það er að ferðast um heiminn með barn á leikskólaaldri.
„Að ferðast með barn er ótrúlega gefandi upplifun, sérstaklega ef þú velur að hægja á, fylgjast með og sjá heiminn með augum barns,” sagði móðirin.
„Á ferðalagi okkar hef ég tekið eftir því að margir foreldrar eiga í erfiðleikum með að njóta þess að ferðast um með börnunum sínum þar sem ferðavæntingar stangast oft á við þarfir barnanna og skapar streitu. Þetta álag getur auðveldlega leitt til gremju bæði fyrir foreldra og börn og breytt ánægjulegri upplifun í krefjandi.”
Að sögn Noack er mjög auðvelt að njóta þess að ferðast með börnum og segir hún að með réttu hugarfari og nokkrum hagnýtum aðferðum geti fjölskyldur auðveldlega skapað eftirminnilega ferðaupplifun sem er ánægjuleg fyrir alla, unga sem aldna.
„Það skiptir öllu máli að fjölga gæða- og samverustundum fjölskyldunnar, það þarf ekki að heimsækja hvern einasta túristastað, bara til að bíða í röð. Ég mæli eindregið með því að heimsækja leiksvæði eða barnvæn kaffihús, það gerir heilmikið.”
Mæðgurnar, sem eru frá Þýskalandi, hafa ferðast vítt og breitt um Evrópu og Asíu. Noack upplifði sig öruggasta með barn í Suðaustur-Asíu, sérstaklega í Nepal og Laos, enda mun rólegra umhverfi en í stórborgunum.