Um helgina fer hátíðin Austurland Freeride Festival fram í Oddskarði fyrir austan og í nærliggjandi fjöllum. Hátíðin hófst í dag og endar á sunnudag. Þetta er fimmta árið sem Freeride Festival er haldið á Austurlandi og hefur viðburðurinn vaxið ört síðustu ár.
Það sem er einstakt við hátíðina er fjallaskíðamennskan og snjóbretti utan troðinna slóða og verða fjöldi fjallaferða með leiðsögn á dagskrá, líkt og segir í tilkynningu frá Visit Austurland.
„Hátíðin snýst einnig um menningu, samveru og upplifun í stórbrotnu landslagi Austurlands og fá þátttakendur tækifæri til að upplifa náttúruna í austfirsku ölpunum undir handleiðslu reyndra fjallamanna.“
Lögð er áhersla á að höfða til sem flestra á hátíðinni, ekki eingöngu til reyndra fjallaskíðamanna, og þátttaka kostar ekkert.
Einnig kemur fram í tilkynningunni að á meðal dagskrárliða séu fjölbreyttar fjallaferðir, menningarviðburðir og afslöppun í heitum laugum og pottum eftir langan dag á fjöllum.
„Oddsskarð er eitt þekktasta skíðasvæði Austurlands, en hátíðin nýtir sér ekki aðeins troðnar brekkur heldur einnig ótroðnar fjallahlíðar í nágrenninu. Snjóaðstæður eru góðar í ár, með stöðugu grunnlagi í fjöllunum og veðurspáin lofar góðu.“
Svo það liggur beinast við fyrir áhugasama að skella sér austur um helgina.