Áhrifavaldurinn Steph Bohrer, frá Charleston í Suður-Karólínu, deildi ellefu sekúndna myndbandi á samfélagsmiðlum í gær sem fór á flug í netheimum. Í myndbandinum segir Bohrer frá óvæntum rómantískum skilaboðum sem hún fékk frá flugmanni á ferðalagi sínu.
„Ég sit á flugvellinum og flugmaður skellti þessu á borðið hjá mér og gekk í burtu,“ segir Bohrer í myndbandinu, en hún er með milljón fylgjendur á TikTok og tæplega fjögur hundruð þúsund á Instagram.
Skilboð flugmannsins voru rituð aftan á servíettu: „Ég hef séð allan heiminn og þú ert fallegasta manneskjan í honum.“
Allt kemur þetta fram í myndbandinu með lagi Taylor Swift, Enchanted, í bakgrunni. „Ég sá ekki einu sinni framan í hann,“ segir hún einnig.
Frá því í gær hafa 11,4 milljónir horft á myndbandið og 1,7 milljónir líkað við það.
Þó eru ekki allir sammála um að skilaboðin séu „heiðarleg“ og í einni athugasemd við myndbandið segir: „Ég er fyrrum flugþjónn. Þú getur verið viss um að hann gerir þetta á hverjum einasta flugvelli og það er örugglega einhver önnur að bíða hans heima.“
Þá eru enn aðrir sem halda því fram, þar sem hún er áhrifavaldur, að hún hafi skrifað sjálf á servíettuna í því skyni að fá athygli á samfélagsmiðlum.
Þetta dularfulla mál heldur áfram að vera óleyst.
@stephbohrer i didn’t even see his face
♬ Enchanted (Taylor's Version) - Taylor Swift