Shimanami Kaido er sjötíu kílómetra hjólaleið í Japan sem tengir saman aðaleyjarnar Honshu og Shikoku og fleiri smáeyjar í Seto Inland-hafinu, á milli Indlands- og Kyrrahafs.
Leiðin er sögð ein sú ótrúlegasta í heimi.
Í árþúsundir voru þessar litlu, hæðóttu eyjar aðeins aðgengilegar sjóleiðina eða þar til Nishi Seto-hraðbrautin var byggð fyrir vegaflutninga árið 1999. Shimanami Kaido-hjólaleiðin liggur samsíða hraðbrautinni og tengir Onomichi-eyju við Honshu sem tengist við Imabari-eyju og þaðan yfir á Shikoku. Hjólaleiðin var tilnefnd fyrsta „þjóðarhjólaleiðin“ í Japan árið 2019.
Heimamenn á eyjunum eru hæstánægðir með hjólaleiðina þar sem hún hefur aukið ferðamennsku og þar með starfstækifæri eyjaskeggja. Þess vegna hafa brottfluttir snúið til baka úr borgunum til að starfa hjá fyrirtækjum sem hafa sprottið upp síðustu ár.
Á leiðinni er ekki einungis hægt að njóta náttúrunnar heldur einnig alls þess frábæra í matargerð og fersks sjávarfangs.
Hægur og friðsæll taktur Seto Inland-hafsins heillar hvern þann sem hjólar eftir stígnum.
Framkvæmdastjóri Setoda-hótelsins á Ikuchijima-eyju, sem er lykilstopp á leiðinni, segir Shimanami Kaido ekki einungis lykilstopp heldur lykilatriði í að dreifa ferðamönnum um Japan. Árið 2024 flykktust 35 milljónir ferðamanna til Japans og heimsóttu flestir höfuðborgina Tókýó, Osaka og Kyoto.
Eftir því sem eftirspurn eftir hjólaferðamennsku eykst á alþjóðavísu hjálpa hjólaleiðir eins og Shimanami Kaido til við að dreifa ferðamönnum um landið.
Hægt er að klára hjólaleiðina á nokkrum klukkustundum en það er einnig hægt að taka nokkra útúrdúra og lengja þar með heildarferðina. Shimanami Kaido er nokkuð örugg og auðveld yfirferðar, með hvíldarstoppum, sjálfsölum og reiðhjólaverkstæðum á leiðinni.
Allur hjólastígurinn er afmarkaður með blárri línu, sem máluð er í vegkantinn, að mestu bíllaus og flöt. Nokkur fyrirtæki bjóða upp á reiðhjólaleigu og hjólreiðamenn geta leigt og skilað hjólum á leiðinni.