Lucy Edwards, pistlahöfundur Daily Mail, segir frá vinkonuferð sem endaði afskaplega illa.
„Á síðasta ári fór ég ásamt tveimur vinkonum mínum í lúxus frí til Barcelona. Við höfðum nýlega fagnað fertugsafmælum og vildum gera vel við okkur á fjögurra stjörnu hóteli.
Ég hélt að smá sól yrði endurnærandi fyrir okkur. Við myndum hanga saman, rifja upp gamla tíma og snúa aftur heim léttari á sálinni. En stundum kemur í ljós að þeir sem maður heldur að séu vinir manns, eru það kannski ekki.“
„Við drukkum mikið vín fyrsta kvöldið og ein okkar fór að stæra sig af framanum og háum launum. Hin talaði um hvernig gengi að gera upp sveitarsetrið sitt. Ég hafði ekkert slíkt til að stæra mig af og átti við mikla hjónabandsörðugleika að etja en vildi ekki tjá mig um það.
Daginn eftir fórum við í skoðunarferðir og skruppum til Sitges. Það var ekki fyrr en fjórða kvöldið sem ég opnaði mig um hjónaband mitt. Þegar ég sagði að mig grunaði að maðurinn minn hefði haldið framhjá þá tók ég eftir því hvernig þær gjóuðu augunum til hvor annarrar. Þá vissi ég að önnur þeirra hafði sofið hjá honum. Hjarta mitt sökk. Grunur minn var á rökum reistur.
Ég varð orðlaus og hún fór að gráta. Sagði að þau hefðu verið drukkin og þetta gerðist þegar við vorum um tvítugt. En ég sagði henni að hún væri bara ein af mörgum konum. Ég hringdi í manninn minn og sagði honum hvað hafði gerst. Þögnin hans staðfesti allt.
En meira átti eftir að gerast og þá var það hin vinkonan sem átti í hlut. Eitt kvöldið talaði ég um hversu mikill vinnuþjarkur hún væri og að ég dáðist það því í fari hennar. Þá hló hún og sagði mér að þegar ég hafði sagt henni að ég ætlaði að sækja um stöðuhækkun í fyrirtækinu sem við unnum saman hjá, þá hefði það orðið henni hvatning til að gera slíkt hið sama.
„Ég gæti hafa minnst á það við yfirmennina hvað þú hefðir þurft að vera mikið fjarverandi vegna heilsufarsvandamála,“ sagði vinkonan glottandi.
Ég trúði ekki eigin eyrum. Að hún skyldi leggjast svona lágt. Þetta var verra en framhjáhaldið.
Þegar heim var komið ákvað ég að taka líf mitt föstum tökum. Ég sendi þeim skilaboð þar sem ég sagðist ekki vilja umgangast þær meir. Svo sótti ég um skilnað. Léttirinn var umtalsverður.
Ég sé svo sannarlega eftir því að hafa eytt miklum fjárhæðum í frí með svikulum vinkonum en lífið heldur áfram og ég er vitrari.