„Ég verð ekki lengi að fylla minningarbankann”

Stella Michiko ferðast til Praq í fatahönnun.
Stella Michiko ferðast til Praq í fatahönnun. Samsett mynd

Hin 22 ára gamla Stella Michiko Sigrún, nemi á fatahönnunarbraut Listaháskóla Íslands, hélt út til Tékklands, nánar tiltekið Prag, í byrjun febrúar til bæta við sig þekkingu og auka færni. Hún stundar skiptinám við Academy of Arts, Architecture and Design og féll fyrir fegurð tékknesku borgarinnar, gestrisni íbúanna og blómstrandi menningarlífi stuttu eftir lendingu.

„Prag er ótrúlega falleg borg sem býr yfir einstakri orku sem endurspeglar margbreytileika samfélagsins. Hún er passlega stór og hefur upp á svo margt að bjóða, það er alltaf eitthvað að gera hérna, mikið af fallegum kaffihúsum og söfnum. Listasenan í borginni er sömuleiðis mjög öflug og lifandi.

Ég er enn þá að kynn­ast Prag og alltaf að uppgötva eitthvað nýtt,” seg­ir Stella.

Fallegur blár himinn í borginni Prag.
Fallegur blár himinn í borginni Prag. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurð segir Stella það hafa verið erfitt að flytja burt frá fjölskyldu sinni og vinum sem og að aðlagast lífi á nýjum stað.

„Þetta voru mikil viðbrigði en þetta er allt að koma. Það er auðvitað erfitt að skilja ekkert í tékknesku, en ég er á tungumálanámskeiði og vonast til að ná góðum tökum á tungumálinu sem fyrst. Mér líður mjög vel hér í Prag og á nú þegar uppáhaldskaffihús, Café Letka, en þar er fullkomið að setjast niður og njóta kaffibolla eða drykkjar í góðum félagsskap.”

Sólin skín skært í Prag.
Sólin skín skært í Prag. Ljósmynd/Aðsend

Hvað hefur komið þér mest á óvart?

„Þegar ég fór á veitingastað og sá að bjórinn var ódýrari en gosið,” segir Stella og hlær.

„Annars er ég alltaf að lenda í skemmtilegum ævintýrum, ég verð ekki lengi að fylla minningarbankann.”

Stella sýnir tísku sína í borgarlífinu.
Stella sýnir tísku sína í borgarlífinu. Skjáskot/Instagram

Stella er mikil ferðamanneskja og nýtur þess að skoða heiminn. Hún hefur sérstakan áhuga á borgarferðum þar sem henni finnst skemmtilegast að sjá og upplifa ólíka menningarheima, skoða áhugaverðar sýningar og uppgötva leyndar perlur og sögufræga staði í borgunum.

Byggingarlistin er einstök í Prag.
Byggingarlistin er einstök í Prag. Ljósmynd/Aðsend

Ertu dugleg að ferðast?

„Já, ég hef verið að fara mikið til Lugano í Sviss að heimsækja bæði fjölskyldu og vini, ég ólst upp þar. Svo heimsótti ég París, Nice og Mílanó síðasta sumar. Ég reyni að ferðast eins mikið og ég get.”

Ertu með ferðaplön fyrir sumarið?

„Ég ætla að ferðast eitthvað um Evrópu í vor og sumar og svo kem ég heim til Reykjavíkur og held áfram í fatahönnunarnáminu,” segir Stella að lokum.



 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert