Hýdra á Grikklandi: Paradís Leonards Cohens

Kanadíski söngvarinn Leonard Cohen og hin norska Marianne Ihlen kynntust …
Kanadíski söngvarinn Leonard Cohen og hin norska Marianne Ihlen kynntust á Hýdru á snemma á sjöunda áratugnum. Mauricio Muñoz/Unsplash

Hinir vinsælu sjónvarpsþættir um feril og ástarlíf rithöfundarins, ljóðskáldsins, texta- og lagahöfundarins Leonards Cohens, So Long, Marianne, eru í sýningu á Ríkissjónvarpinu þessi misserin.

Í þáttunum er farið vel yfir upprisu frægðarsólar Cohens og baráttuna, höfnunina og ringulreiðina sem getur falist í því að vera sannur listamaður. Ástarsambandi hinnar norsku Marianne Ihlen og Cohen er gerð góð skil og áhorfandi fylgist dáleiddur með hvernig sambandið hefst og sveiflunum sem því fylgir eftir sem á líður. Hvernig Cohen einblíndi á frama sinn og Marianne reyndi að halda í við hann, hve ástfangin þau virtust hafa verið en hvernig frami og jafnvel gyðingarætur Cohens komu í veg fyrir að þau næðu alveg saman. 

Leonard Cohen kemur til grísku eyjunnar Hýdru árið 1960.
Leonard Cohen kemur til grísku eyjunnar Hýdru árið 1960. Skjáskot/Youtube

Svo er svolítið annað spennandi við þættina og það er gríska paradísareyjan Hýdra, þar sem Cohen og Marienne kynntust. Grísk menning og matargerð, tónlist sem spiluð er á krítverska lýru og umhverfið svo sjarmerandi, hvítmáluð hús með rauðum þökum og þröngir stígar á meðal þeirra.

Að vísu mikil drykkja þeirra bóhema sem þar dvöldu en við látum það liggja á milli hluta.

Hægt er að fara í gönguferðir í hæðóttu landslaginu við …
Hægt er að fara í gönguferðir í hæðóttu landslaginu við bæinn Hýdra-höfnina. Anastasius/Unsplash
Hýdra er mjög aðgengileg eyja og þangað er t.d. hægt …
Hýdra er mjög aðgengileg eyja og þangað er t.d. hægt að fara í dagsferð á bát frá Aþenu. Unsplash

Paradísin suður af Grikklandi

Hýdra er hluti af gríska eyjaklasanum, í Eyjahafi, suður af Grikklandi. Eyjan er þó nokkuð norðar en hin vinsæla Krít.

Á Hýdru er einn eiginlegur bær, þekktur sem Hýdra-höfnin og áætlað er að um 2.500 manns búi í bænum. Þangað sækir fjöldi bóhema árið um kring, enn þann dag í dag, sem og á sjöunda áratugnum líkt og þættirnir gefa til kynna.

Til Hýdru er hægt að fara í dagsferðir á bát, Hýdra-ferjunni, frá höfuðborginni Aþenu á meginlandinu og þar er einnig fjöldi hótela og Airbnb-gistimöguleika sem teygja sig allt frá um 10.000 kr. og upp úr fyrir nóttina.

Góður tími til að heimsækja eyjuna er nánast árið um kring, en janúar og febrúar eru köldustu mánuðirnir og jafnframt þeir blautustu, ásamt desember. Tímabilið mars til júní og aftur september til byrjun desember er sagt það langbesta veðurfarslega séð.

Sjarmann er að finna í hverjum krók og kima.
Sjarmann er að finna í hverjum krók og kima. Leo/Unsplash
Það myndi ekki væsa um fólk þarna á svona fallegum …
Það myndi ekki væsa um fólk þarna á svona fallegum degi. Mauricio Muñoz/Unsplash

Afþreying og sjarminn

Á Hýdru er ýmislegt að sýsla sér til dægrastyttingar, hvort sem er að ganga niður að höfninni og njóta þess að sitja úti við í mat og drykk eða gera eitthvað enn menningarlegra á borð við að heimsækja söfn. Þar ber helst að nefna: Sögulega skjalasafnið, Kirkjusafnið, Agia Efpraxia-klaustrið og klaustur Elíasar spámanns.

Engin bílaumferð er í bænum og má taka nokkur skref aftur í tímann þegar fylgst er með ösnum draga á eftir sér kerrur með varningi.

Engin bílaumferð er á eyjunni en þar eru notaði asnar …
Engin bílaumferð er á eyjunni en þar eru notaði asnar til að ferja fólk og varning. Jordan Durzi/Unsplash
Æðislegar gönguleiðir eru meðfram strandlengjunni.
Æðislegar gönguleiðir eru meðfram strandlengjunni. Mauricio Muñoz/Unsplash

Á eyjunni er fjöldi gönguleiða og leiða fyrir asna sem gaman er að kanna, sumar hverjar meðfram sjónum með stórbrotnu útsýni og aðrar innar á eyjunni í hæðóttu landslaginu. 

Nokkuð er um verslanir í bænum sem margar selja ekta gríska handgerða skartgripi og útsaum.

Strendurnar við fagurbláan sjóinn eru yfirleitt steinsteiptar, á meðal vinsælustu eru Vlichos, Kaminia, Bisti og Agios Nikolaos. Nokkrir snorklstaðir eru í kringum eyjuna, einkum á Bisti-ströndinni, og þess virði að skoða fjölbreytt sjávarlífið.

Hafa ber í huga að næturlífið á eyjunni er ekki upp á marga fiska og ef sóst er eftir slíku er eflaust ákjósanlegra að ferðast annað. 

Að lokum, þá er spurning hvort möguleiki væri á sjóðheitu ástarævintýri með óþolandi rugluðum og æðslega sjarmerandi bóhem, líkt og Marianne heitin upplifði?

Landslagið er hæðótt og flest húsin hvít með rauðum húsþökum.
Landslagið er hæðótt og flest húsin hvít með rauðum húsþökum. Mauricio Muñoz/Unsplash
Flestar baðstrendurnar eru stéttar.
Flestar baðstrendurnar eru stéttar. Christina Terzidou/Unsplash




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert