Kvenferðalöngum hefur farið fjölgandi undanfarin ár þar sem 71% ferðalanga sem ferðast einir eru konur, þar af eru 25% 65 ára og eldri, samkvæmt þróunarskýrslu Virtuoso, frá ágúst 2024.
Breytt samfélagsleg viðmið og aukið fjárhagslegt sjálfstæði gefur konum frelsi til að kanna heiminn. Þessi þróun hefur einnig leitt til þess að fleiri kvenkyns frumkvöðlar færa sig yfir í ferðaiðnaðinn.
Margar konur fá ekki tækifæri til að ferðast á yngri árum vegna ábyrgðarhluta í lífinu eins og hjónabands, barneigna, starfsframa og annarra félagslegra- og menningarlegra þátta.
„Það er vaxandi löngun til að kanna smærri og fallegri áfangastaði sem bjóða upp á ríka menningu, staðbundin tengsl og möguleikann á að uppgötva meira,“ segir Ellen Flowers, ferðabloggari hjá Perennial Style.
Margar kvenferðir hverfast í kringum áhugamál eins og listsköpun, hestaferðir og matreiðslunámskeið. Framtíðarhorfur í ferðamennsku sem tengist áhugamálum gefa til kynna að markaðurinn gæti náð veltu upp á 5,1 milljarð dollara árið 2025.
Konur hafa áhuga á að vita hvernig aðrar konur lifa og fá þannig betri skilning á menningu þeirra og aðstæðum með því að styðja við innlenda frumkvöðlastarfsemi kvenna og verja tíma með innlendum handverkskonum.
Í því samhengi segir Sarah Faith hjá Responsible Travel að vinsælustu kvennaferðirnar séu þær sem tengja saman ferðalanginn og kvenkyns íbúa á því svæði sem ferðast er til.
Konur á öllum aldri leita eftir ævintýrum, vilja ögra sér og kanna hið óþekkta. Fyrir margar er það persónulegt frelsi. Konur yfir fimmtugu sanna að leitin að spennu í lífinu renni aldrei út á dagsetningu.
„Allt frá því að klöngrast niður kletta til gönguferða í afskekktu landslagi, eru þessir óttalausu landkönnuðir að brjóta niður staðalímyndir og sýna að hreyfiferðir eru fyrir alla.“
Slíkar kvennaferðir eru ekki einungis farnar af eldri konum, heldur eru þær alveg eins vinsælar meðal yngri kvenna. Stress daglega lífsins hefur gert það að verkum að yngri konur sækja einnig sífellt meira í heilsuferðir, eins og jógaferðir.
Þá hafa samfélagsmiðlar á borð við TikTok og Instagram ýtt undir ferðaáhuga yngri kynslóðar kvenna.