Þegar ferðast er til Portúgal eru vinsælustu borgirnar höfuðborgin Lissabon og Portó. Það eru þó ekki allir á eitt sammála um hvor borgin er skemmtilegri. Ferðavefurinn Lonely Planet tekur saman atriði sem hvor borg um sig hefur fram yfir hina.
Höfuðborgin hefur á síðustu þremur áratugum orðið að topp áfangastað. Portó hefur meira yfirbragð „gömlu Evrópu“, en eina ástæðan er sú að flest hverfi í Lissabon jöfnuðust við jörðu í jarðskjálfta 1755. Borgin var svo endurreist undir stjórn Marquês de Pombal.
Ekki týndust þó öll ummerki um hina gömlu Lissabon. Á götum Alfama, elsta hverfis borgarinnar, má finna ummerki um rómverskan miðaldamúr frá 13. öld, en þau ummerki má einnig finna í gamla gyðingahverfinu.
Ein elsta bókaverslun í heimi er í Lissabon, verslunin var byggð árið 1732 og er á Livraria Bertrand í Chiado. Þar er hægt að gleyma sér í ævafornum bókmenntum og kíkja svo á Bertrand-kaffihúsið inn af bókasafninu.
Gamlar verksmiðjur og vöruhús í Lissabon hafa orðið að óhefðbundnum verslunarsvæðum, miðstöðvum lista og aðsetri sprotafyrirtækja.
Samtímalist er aðgengileg í höfuðborginni en hægt er að skoða veggjakrotsmyndir á leið sinni í sporvagninum Elevador da Glória, listasýningar á almenningssalernum neðanjarðar, sem ekki eru í notkun, og jafnvel neðanjarðarlestarstöðvar eru þaktar verkum síðan sú fyrsta opnaði 1959, þar er Olaias einna eftirminnilegust.
Hin fræga fadó-tónlist kemur frá Lissabon og hægt er að sækja fjölda tónlistarviðburða hvort sem er yfir kvöldverði, eða ekki, þar sem þemað er fadó.
Lissabon er óneitanlega heillandi, en á hrörlegan og stundum óreiðukenndan, suður-evrópskan máta, meira í anda Palermo en París. Portó nær aftur á móti þessu tignarlega yfirbragði og er það byggingarlist borgarinnar að þakka.
Mannvirki Portó eiga mörg hver rætur sínar að rekja aftur til 14. aldar.
Portó er þekkt fyrir skapandi andrúmsloft og virkt listrænt samfélag. Þótt margar af fremstu listastofnunum landsins sé að finna í Lissabon er t.d. að finna eitt besta samtímalistasafn Evrópu í Portó, Serralves Foundation.
Museu Nacional Soares dos Reis hefur að geyma eitt besta safn innlendrar listar og er staðsett í gamalli höll. Þá er Centro Portugues de Fotografia, ljósmyndasafnið, til húsa í gömlu fangelsi og hýsir þar frábærar tímabundnar sýningar.
Í Portó er einnig að finna eina fallegustu bókaverslun í heimi, Livraria Lello.
Frábærir útsýnisstaðir eru víðs vegar um Portó, þ.á.m Torre dos Clérigos.
Sterk vín eru stór hluti af matargerðararfleifð borgarinnar en þó er annað eins og kjötmeti einnig efst á lista: Svínakjöt í þunnum sneiðum, steikt upp úr lárðviðarlaufum og hvítlauk með slatta af chili-olíu.
Alræmdasta samloka Portó er svokölluð francesinha; með þunnri steik, tveimur tegundum af pylsum, skinku, osti, steiktu eggi og kryddaðri sósu.
Í um hundrað kílómetra fjarlægð frá borginni er Parque Nacional Peneda-Gerês-þjóðgarðurinn og með einfaldri lestarferð er hægt að fara í töfrandi landslag í Douro-dalnum.