Sálfræðingurinn Ragnhildur Þórðardóttir, landsmönnum betur þekkt sem Ragga nagli, er ævintýragjörn og elskar að ferðast um heiminn og kynna sér framandi menningarheima með uppáhaldsferðafélaga sínum, eiginmanni sínum til 18 ára, Snorra Steini Þórðarsyni arkitekt. Saman hafa hjónin heimsótt fjölda landa og upplifað fegurð heimsins í öllum sínum myndum.
Í mars á síðasta ári rættist langþráður draumur Ragnhildar þegar hjónin ferðuðust alla leið til Egyptalands, lands sem státar af einni elstu siðmenningu í heimi, og skoðuðu helstu kennileiti borganna Kaíró og Lúxor.
Ragnhildur er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún smitaðist snemma af ferðabakteríunni, en móðir hennar, Lilja Hilmarsdóttir, hefur starfað sem fararstjóri í áraraðir, alveg frá því að Ragnhildur var barn, og átti mikinn þátt í að sýna dóttur sinni heiminn. Ragnhildur eyddi því stórum hluta barnæskunnar á faraldsfæti og var búin að heimsækja flest, ef ekki öll, lönd í Evrópu þegar hún var 12 ára gömul.
„Já, ég er búin að heimsækja hverja einustu kirkju í Evrópu,“ segir hún og hlær.
Manstu eftir fyrstu utanlandsferðinni?
„Já, eitthvað rámar mig í hana. Ég var fjögurra ára gömul og fór ásamt móður minni og systur til Danmerkur og Þýskalands. Við eyddum deginum á Bakken, ég klæddist nýjum skóm sem gáfu mér hælsæri. Ég viðurkenni að ég man ekki ferðina frá a-ö en ég hef séð þó nokkrar myndir og þannig náð að púsla minningum af fyrsta ferðalaginu saman.“
Eins og fram hefur komið starfar Lilja, móðir Ragnhildar, sem fararstjóri og var hún því oft á ferðalögum, stundum heilu og hálfu mánuðina í senn.
Ragnhildur var oft með henni og fékk mörg skemmtileg tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn en móður hennar fannst þó á einum tímapunkti nóg komið af þvælingi og ákvað að bjóða dóttur sinni að dvelja á sveitabæ í Suður-Þýskalandi í stað þess að þeytast um með henni hingað og þangað.
„Já, ég var sjö ára gömul þegar mamma spurði mig hvort ég hefði einhvern áhuga á að fara í sveit í Suður-Þýskalandi í nokkrar vikur. Það hljómaði mjög vel, enda fullt af krökkum og dýrum til að leika við. Ég var þar í tvær vikur, fyrstu vikuna þagði ég en vikuna á eftir var ég byrjuð að tala þýsku og mállýsku. Þetta varð að skemmtilegri hefð, ég fór hvert sumar í eina til tvær vikur í mörg ár.“
Ragnhildur hefur verið búsett ásamt eiginmanni sínum í Danmörku, nánar tiltekið Kaupmannahöfn, síðastliðin 16 ár.
Hvernig kom það til að þið fluttuð út?
„Ég og Snorri misstum bæði vinnuna í hruninu árið 2008. Þá vorum við búin að vera á Íslandi í tvö ár. Fyrir það vorum við búsett í Edinborg og síðar í Guildford á Suður-Englandi, á meðan við lukum framhaldsnámi. Að námi loknu héldum við heim til Íslands. Á þeim tíma var allt á blússandi siglingu en ekki leið á löngu þar til allt hrundi, sem við litum á sem eins konar tákn.
Við vorum aldrei fyllilega sátt við þessa ákvörðun okkar að flytja heim, okkur fannst við eiga heima í útlöndum. Ísland var einfaldlega orðið of lítið fyrir okkur.
Bróðir Snorra býr í Kaupmannahöfn og það var hann sem hvatti okkur til að flytja þangað. Í byrjun fannst mér þetta glötuð hugmynd, ég hugsaði bara: „Hvað er spennandi við Kaupmannahöfn?“
En síðan eru liðin 16 ár og við gætum vart verið hamingjusamari með ákvörðunina,“ segir Ragnhildur.
Ragnhildur og Snorri elska fátt meira en að ferðast og reyna að fara í eina stóra ferð, helst á nýjar og framandi slóðir, á hverju ári.
„Við erum ferðaglöð, það er ekki hægt að segja annað. Ég kýs framandi slóðir fram yfir Evrópu, enda búin að þvælast nóg þar,“ segir hún og hlær.
„Ég elska framandi kúltúr, sérstaklega múslímskan kúltúr, enda búsett á Nørrebro þar sem er stórt samfélag múslíma. Það hefur því lengi verið draumur minn að ferðast til Egyptalands og sjá píramídana í allri sinni dýrð. Mér finnst að hvert einasta mannsbarn þurfi að sjá og upplifa þá.“
Stóð Egyptaland undir væntingum?
„Svona já og nei.
Kaíró fannst mér mjög óspennandi og heldur ljót borg. Hún var bara skítug og kaótísk. Þar er allt í niðurníðslu og efnahagurinn hræðilegur, gjaldmiðillinn hrundi um 30 til 40% á meðan við vorum þarna. Í Kaíró eru fín úthverfi en miðbærinn er ekki neitt, engin almennileg verslunargata og geitur á götunum.
Píramídarnir eru magnaðir, þú ert varla einn kubbur, en það sem okkur hjónunum þótti einna áhugaverðast var að skoða grafhvelfingarnar í Lúxor. Að ganga niður í iður jarðar, í gegnum myndskreytt göng sem voru handskreytt fyrir þúsundum ára, og sjá þessar risastóru kistur úr grjóti, það er einfaldlega ólýsanlegt.“
Upplifðir þú menningarsjokk?
„Nei, ég bý á Nørrebro og upplifi þetta á hverjum degi. Beint á móti skrifstofunni minni eru innflytjendablokkir og moska, það er dásamlegt að fylgjast með þessu, fallegur kúltúr og dásamlegt fólk.“
Á leið sinni að heimsækja píramídana lentu Ragnhildur og Snorri í klóm svindlara.
„Æjá, það var leiðinlegt en það var sem betur fer búið að vara okkur við því að Egyptar væru ágengir á túristasvæðum, alltaf að reyna að kreista út meiri og meiri peninga. Á tímum leið mér eins og ég væri að slá frá mér flugur.
Þetta getur auðvitað verið rosalega pirrandi en ég skynjaði um leið þessa miklu neyð, þetta er fólk sem er að reyna að bjarga lífi sínu og fóðra fjölskyldu sína í bágu ástandi,“ segir Ragnhildur.
„Við lentum í rosalegu ævintýri á leið okkar að píramídunum en við höfðum ákveðið að koma okkur sjálf á staðinn, ég mæli alls ekki með því að fólk geri það. Við vorum hálfplötuð,“ segir hún.
Ragnhildur og Snorri tóku lest og það var í henni sem maður nálgaðist þau með hjálplegt tilboð.
„Í lestinni kemur maður að okkur og segir: „Eruð þið að fara að skoða píramídana?“ Hann byrjar að spjalla, varar okkur við öllum svindlurunum, sérstaklega ökumönnunum, og býður okkur að fara með sér í strætó. Hann er með ungan dreng í eftirdragi.
Við, saklausir túristar, hugsuðum með okkur: „Vá, en vingjarnlegur maður.“
Það sem við vissum ekki þá var að hann var að reyna að svindla á okkur. Hann hvatti okkur til að yfirgefa strætóinn og hoppa upp í bíl, en ökumaður bílsins var vinur hans. Okkur fannst þetta mjög grunsamlegt og afþökkuðum því boðið en hann gaf sig ekki og sagði þetta mjög gott tilboð. Við náðum á endanum að losa okkur úr klóm svindlaranna, en sögunni lýkur þó ekki þar.
Þegar við vorum á leið frá píramídunum stigum við upp í leigubíl, sem við héldum að væri góður og gildur, en þá kom annað í ljós. Bílstjórinn var snarruglaður ungur maður sem talaði enga ensku og var með batteríslausan síma og bensínljósið blikkandi frá fyrstu mínútu. Hann vissi ekkert hvert hann átti að fara með okkur, keyrði bara í hringi og endaði á þjóðvegi, sex akreina bílvegi, og byrjaði að bakka.
Ég hugsaði bara með mér: „Já, hérna dey ég.“
Við hentum í hann pening og hoppuðum út á ferð. Það er án efa ein besta ákvörðun lífs míns,“ segir Ragnhildur og hlær.
Ferðalag Ragnhildar og Snorra var eitt stórt ævintýri. Það sem stóð upp úr í henni var ferð í loftbelg við sólarupprás.
„Þetta var hreint út sagt ógleymanleg, og ég meina ógleymanleg, upplifun.
Eina nóttina vorum við sótt á hótelið og keyrð inn í miðja eyðimörkina. Ótrúleg sjón blasti við okkur þegar við mættum á svæðið, en 30 til 40 loftbelgir voru þar á sveimi.
Örstuttu seinna tókumst við á loft í einum loftbelgjanna og eins og örskot vorum við komin hátt upp og fylgdumst með sólinni koma upp.“
Langar þig aftur að heimsækja Egyptaland?
„Nei, ég þarf aldrei að fara þangað aftur. Ég fann það fljótt.“
Eruð þið með spennandi ferðaplön?
„Já, okkur langar alltaf að ferðast meira um Afríku, við höfum farið um Norður-Afríku en það væri gaman að upplifa vesturafríska menningu og fara til Suður-Afríku. Það eru tvö lönd, að vísu ekki í Afríku, sem sitja á toppi listans, en það eru Japan og Argentína.”