Ragga nagli lenti í klóm svindlara

Ragnhildur Þórðardóttir og eiginmaður hennar, Snorri Steinn Þórðarson, vörðu dásemdardögum …
Ragnhildur Þórðardóttir og eiginmaður hennar, Snorri Steinn Þórðarson, vörðu dásemdardögum í Egyptalandi. Samsett mynd

Sál­fræðing­ur­inn Ragn­hild­ur Þórðardótt­ir, lands­mönn­um bet­ur þekkt sem Ragga nagli, er æv­in­týra­gjörn og elsk­ar að ferðast um heim­inn og kynna sér fram­andi menn­ing­ar­heima með upp­á­halds­ferðafé­lag­a sín­um, eig­in­manni sín­um til 18 ára, Snorra Steini Þórðar­syni arki­tekt. Sam­an hafa hjón­in heim­sótt fjölda landa og upp­lifað feg­urð heims­ins í öll­um sín­um mynd­um.

Í mars á síðasta ári rætt­ist langþráður draum­ur Ragn­hild­ar þegar hjón­in ferðuðust alla leið til Egypta­lands, lands sem stát­ar af einni elstu siðmenn­ingu í heimi, og skoðuðu helstu kenni­leiti borg­anna Kaíró og Lúxor.

Alltaf verið á far­alds­fæti

Ragn­hild­ur er fædd og upp­al­in í Reykja­vík. Hún smitaðist snemma af ferðabakt­erí­unni, en móðir henn­ar, Lilja Hilm­ars­dótt­ir, hef­ur starfað sem far­ar­stjóri í ár­araðir, al­veg frá því að Ragn­hild­ur var barn, og átti mik­inn þátt í að sýna dótt­ur sinni heim­inn. Ragn­hild­ur eyddi því stór­um hluta barnæsk­unn­ar á far­alds­fæti og var búin að heim­sækja flest, ef ekki öll, lönd í Evr­ópu þegar hún var 12 ára göm­ul.

„Já, ég er búin að heim­sækja hverja ein­ustu kirkju í Evr­ópu,“ seg­ir hún og hlær.

Snorri Steinn og Ragnhildur stilltu sér upp fyrir framan píramídana.
Snorri Steinn og Ragn­hild­ur stilltu sér upp fyr­ir fram­an píra­míd­ana. Ljós­mynd/​Aðsend

Manstu eft­ir fyrstu ut­an­lands­ferðinni?

„Já, eitt­hvað rám­ar mig í hana. Ég var fjög­urra ára göm­ul og fór ásamt móður minni og syst­ur til Dan­merk­ur og Þýska­lands. Við eydd­um deg­in­um á Bakk­en, ég klædd­ist nýj­um skóm sem gáfu mér hæl­særi. Ég viður­kenni að ég man ekki ferðina frá a-ö en ég hef séð þó nokkr­ar mynd­ir og þannig náð að púsla minn­ing­um af fyrsta ferðalag­inu sam­an.“

Eins og fram hef­ur komið starfar Lilja, móðir Ragn­hild­ar, sem far­ar­stjóri og var hún því oft á ferðalög­um, stund­um heilu og hálfu mánuðina í senn.

Ragn­hild­ur var oft með henni og fékk mörg skemmti­leg tæki­færi til að víkka sjón­deild­ar­hring­inn en móður henn­ar fannst þó á ein­um tíma­punkti nóg komið af þvæl­ing­i og ákvað að bjóða dótt­ur sinni að dvelja á sveita­bæ í Suður-Þýskalandi í stað þess að þeyt­ast um með henni hingað og þangað.

„Já, ég var sjö ára göm­ul þegar mamma spurði mig hvort ég hefði ein­hvern áhuga á að fara í sveit í Suður-Þýskalandi í nokkr­ar vik­ur. Það hljómaði mjög vel, enda fullt af krökk­um og dýr­um til að leika við. Ég var þar í tvær vik­ur, fyrstu vik­una þagði ég en vik­una á eft­ir var ég byrjuð að tala þýsku og mál­lýsku. Þetta varð að skemmti­legri hefð, ég fór hvert sum­ar í eina til tvær vik­ur í mörg ár.“

Fluttu til Dan­merk­ur eft­ir hrun

Ragn­hild­ur hef­ur verið bú­sett ásamt eig­in­manni sín­um í Dan­mörku, nán­ar til­tekið Kaup­manna­höfn, síðastliðin 16 ár.

Hvernig kom það til að þið fluttuð út?

„Ég og Snorri misst­um bæði vinn­una í hrun­inu árið 2008. Þá vor­um við búin að vera á Íslandi í tvö ár. Fyr­ir það vor­um við bú­sett í Ed­in­borg og síðar í Guild­ford á Suður-Englandi, á meðan við luk­um fram­halds­námi. Að námi loknu héld­um við heim til Íslands. Á þeim tíma var allt á blúss­andi sigl­ingu en ekki leið á löngu þar til allt hrundi, sem við lit­um á sem eins kon­ar tákn.

Við vor­um aldrei fylli­lega sátt við þessa ákvörðun okk­ar að flytja heim, okk­ur fannst við eiga heima í út­lönd­um. Ísland var ein­fald­lega orðið of lítið fyr­ir okk­ur.

Bróðir Snorra býr í Kaup­manna­höfn og það var hann sem hvatti okk­ur til að flytja þangað. Í byrj­un fannst mér þetta glötuð hug­mynd, ég hugsaði bara: „Hvað er spenn­andi við Kaup­manna­höfn?“

En síðan eru liðin 16 ár og við gæt­um vart verið ham­ingju­sam­ari með ákvörðun­ina,“ seg­ir Ragn­hild­ur.

Snorri Steinn og Ragnhildur á góðri stundu.
Snorri Steinn og Ragn­hild­ur á góðri stundu. Ljós­mynd/​Aðsend

Ferðaglöð hjón

Ragn­hild­ur og Snorri elska fátt meira en að ferðast og reyna að fara í eina stóra ferð, helst á nýj­ar og fram­andi slóðir, á hverju ári.

„Við erum ferðaglöð, það er ekki hægt að segja annað. Ég kýs fram­andi slóðir fram yfir Evr­ópu, enda búin að þvæl­ast nóg þar,“ seg­ir hún og hlær.

„Ég elska fram­andi kúltúr, sér­stak­lega mús­límsk­an kúltúr, enda bú­sett á Nør­re­bro þar sem er stórt sam­fé­lag mús­líma. Það hef­ur því lengi verið draum­ur minn að ferðast til Egypta­lands og sjá píra­míd­ana í allri sinni dýrð. Mér finnst að hvert ein­asta manns­barn þurfi að sjá og upp­lifa þá.“

Ragnhildur segir það einstaka upplifun að sjá píramídana.
Ragn­hild­ur seg­ir það ein­staka upp­lif­un að sjá píra­míd­ana. Ljós­mynd/​Aðsend

Stóð Egypta­land und­ir vænt­ing­um?

„Svona já og nei.

Kaíró fannst mér mjög óspenn­andi og held­ur ljót borg. Hún var bara skít­ug og kaó­tísk. Þar er allt í niður­níðslu og efna­hag­ur­inn hræðileg­ur, gjald­miðill­inn hrundi um 30 til 40% á meðan við vor­um þarna. Í Kaíró eru fín út­hverfi en miðbær­inn er ekki neitt, eng­in al­menni­leg versl­un­ar­gata og geit­ur á göt­un­um.

Píra­míd­arn­ir eru magnaðir, þú ert varla einn kubb­ur, en það sem okk­ur hjón­un­um þótti einna áhuga­verðast var að skoða graf­hvelf­ing­arn­ar í Lúxor. Að ganga niður í iður jarðar, í gegn­um myndskreytt göng sem voru handskreytt fyr­ir þúsund­um ára, og sjá þess­ar risa­stóru kist­ur úr grjóti, það er ein­fald­lega ólýs­an­legt.“

Grafhvelfingarnar í Luxor.
Graf­hvelf­ing­arn­ar í Luxor. Ljós­mynd/​Aðsend

Upp­lifðir þú menn­ing­ar­sjokk?

„Nei, ég bý á Nør­re­bro og upp­lifi þetta á hverj­um degi. Beint á móti skrif­stof­unni minni eru inn­flytj­enda­blokk­ir og moska, það er dá­sam­legt að fylgj­ast með þessu, fal­leg­ur kúltúr og dá­sam­legt fólk.“

„Egypt­ar eru ágeng­ir á túrista­svæðum“

Á leið sinni að heim­sækja píra­míd­ana lentu Ragn­hild­ur og Snorri í klóm svindlara.

„Æjá, það var leiðin­legt en það var sem bet­ur fer búið að vara okk­ur við því að Egypt­ar væru ágeng­ir á túrista­svæðum, alltaf að reyna að kreista út meiri og meiri pen­inga. Á tím­um leið mér eins og ég væri að slá frá mér flug­ur.

Þetta get­ur auðvitað verið rosa­lega pirr­andi en ég skynjaði um leið þessa miklu neyð, þetta er fólk sem er að reyna að bjarga lífi sínu og fóðra fjöl­skyldu sína í bágu ástandi,“ seg­ir Ragn­hild­ur.

Hjónin lentu í miklum ævintýrum.
Hjón­in lentu í mikl­um æv­in­týr­um. Ljós­mynd/​Aðsend

„Við lent­um í rosa­legu æv­in­týri á leið okk­ar að píra­míd­un­um en við höfðum ákveðið að koma okk­ur sjálf á staðinn, ég mæli alls ekki með því að fólk geri það. Við vor­um hálf­plötuð,“ seg­ir hún.

Ragn­hild­ur og Snorri tóku lest og það var í henni sem maður nálgaðist þau með hjálp­legt til­boð.

„Í lest­inni kem­ur maður að okk­ur og seg­ir: „Eruð þið að fara að skoða píra­míd­ana?“ Hann byrj­ar að spjalla, var­ar okk­ur við öll­um svindl­ur­un­um, sér­stak­lega öku­mönn­un­um, og býður okk­ur að fara með sér í strætó. Hann er með ung­an dreng í eft­ir­dragi.

Við, sak­laus­ir túrist­ar, hugsuðum með okk­ur: „Vá, en vin­gjarn­leg­ur maður.“

Það sem við viss­um ekki þá var að hann var að reyna að svindla á okk­ur. Hann hvatti okk­ur til að yfir­­gefa strætó­inn og hoppa upp í bíl, en ökumaður bíls­ins var vin­ur hans. Okk­ur fannst þetta mjög grun­sam­legt og afþökkuðum því boðið en hann gaf sig ekki og sagði þetta mjög gott til­boð. Við náðum á end­an­um að losa okk­ur úr klóm svindl­ar­anna, en sög­unni lýk­ur þó ekki þar.

Þegar við vor­um á leið frá píra­míd­un­um stig­um við upp í leigu­bíl, sem við héld­um að væri góður og gild­ur, en þá kom annað í ljós. Bíl­stjór­inn var snarruglaður ung­ur maður sem talaði enga ensku og var með batte­rís­­laus­an síma og bens­ín­ljósið blikk­andi frá fyrstu mín­útu. Hann vissi ekk­ert hvert hann átti að fara með okk­ur, keyrði bara í hringi og endaði á þjóðvegi, sex ak­reina bíl­vegi, og byrjaði að bakka.

Ég hugsaði bara með mér: „Já, hérna dey ég.“

Við hent­um í hann pen­ing og hoppuðum út á ferð. Það er án efa ein besta ákvörðun lífs míns,“ seg­ir Ragn­hild­ur og hlær.

Ragnhildur segir Egypta ágenga á túristasvæðum.
Ragn­hild­ur seg­ir Egypta ágenga á túrista­svæðum. Ljós­mynd/​Aðsend

Loft­belgja­ferðin eft­ir­minni­leg­ust

Ferðalag Ragn­hild­ar og Snorra var eitt stórt æv­in­týri. Það sem stóð upp úr í henni var ferð í loft­belg við sól­ar­upp­rás.

„Þetta var hreint út sagt ógleym­an­­leg, og ég meina ógleym­an­leg, upp­lif­un.

Eina nótt­ina vor­um við sótt á hót­elið og keyrð inn í miðja eyðimörk­ina. Ótrú­leg sjón blasti við okk­ur þegar við mætt­um á svæðið, en 30 til 40 loft­belg­ir voru þar á sveimi.

Örstuttu seinna tók­umst við á loft í ein­um loft­belgj­anna og eins og ör­skot vor­um við kom­in hátt upp og fylgd­umst með sól­inni koma upp.“

Mögnuð sjón.
Mögnuð sjón. Ljós­mynd/​Aðsend

Lang­ar þig aft­ur að heim­sækja Egypta­land?

„Nei, ég þarf aldrei að fara þangað aft­ur. Ég fann það fljótt.“

Eruð þið með spenn­andi ferðaplön?

„Já, okk­ur lang­ar alltaf að ferðast meira um Afr­íku, við höf­um farið um Norður-Afr­íku en það væri gam­an að upp­lifa vesturafríska menn­ingu og fara til Suður-Afr­íku. Það eru tvö lönd, að vísu ekki í Afr­íku, sem sitja á toppi list­ans, en það eru Jap­an og Arg­entína.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert