Frakkar, þá sérstaklega þeir sem búsettir eru í Montmartre-hverfinu í París, eru sagðir finna fyrir auknu ónæði af völdum ferðamanna á svæðinu. Ástæðan er sögð vera vinsældir þáttaraðarinnar Emily in Paris sem sýnd hefur verið á streymisveitunni Netflix frá árinu 2020.
Aðdáendur Emily in Paris flykkjast til borgarinnar í stríðum straumum til að sjá og upplifa borgina með berum augum og heimsækja staði sem birst hafa í þáttunum í þeirri von að endurgera atriði og/eða ná flottum ferðamyndum til að deila á samfélagsmiðlum.
Montmartre-hverfið, sem margir segja eitt fallegasta hverfi borgarinnar, kemur reglulega við sögu í þáttunum og er það því vinsæll viðkomustaður ungra aðdáenda sem ferðast til Parísar í leit að ást og ævintýrum líkt og aðalpersóna þáttanna, Emily Cooper, sem leikin er af Lily Collins.
Íbúar Montmartre hafa margir hverjir mótmælt stöðugt auknum ferðamannastraumi og einhverjir lýstu óánægju sinni með því að krota á gluggahlera á vinsælu kaffihúsi, sem er einn af fjölmörgum tökustöðum Emily in Paris í Evrópuborginni, nýverið.
Íbúarnir eru sagðir hafa miklar áhyggjur af takmörkun umferðar og dvalar á svæðinu vegna taka og hræðast einnig hækkandi leiguverð.