Þær Saga Rún Vilhjálmsdóttir, nemi við Háskóla Íslands, og Lana Björk Kristinsdóttir, eigandi og stofnandi Kenzen, höfðu gert sér lítið fyrir og ferðuðust til Glasgow til að fara á tónleika bandarísku poppstjörnunnar Sabrinu Carpenter.
Carpenter er nú á Short & Sweet-tónleikaferðalagi um Evrópu, en þegar stúlkurnar mættu í OVO Hydro höllina fyrir tónleikana fengu þær þær óvæntu fréttir að miðar þeirra væru ógildir.
Saga og Lana höfðu keypt miða í gegnum miðasölusíðuna Viagogo, en tónleikahaldið þar á staðnum hafnaði öllum miðum sem höfðu verið keyptir í gegnum þá síðu.
Viagogo er endursölumarkaður þar sem einstaklingar geta endurselt miða, en því miður höfðu margir miðar verið endurseldir oftar en einu sinni. Þetta leiddi til þess að um 150 manns var vísað frá í miklum vonbrigðum og tárum.
Eftir töluverða bið var sett á fót sérstök biðröð fyrir fólk sem hafði keypt miða í gegnum Viagogo. Þar var athugað hvort einhver sæti raunverulega í þeim sætum sem stúlkurnar höfðu greitt fyrir. Það kom svo í ljós að það sat enginn í sætunum þeirra og sætin þeirra voru því laus.
Það fengu einungis tíu manns, með Viagogo-miða, aðgang að tónleikunum – þar af voru Saga og Lana.
Heppnin var með þessum ungu stúlkum þetta kvöld og nutu þær sín í botn en leiðinlegt að horfa upp á alla hina sem fengu ekki að upplifa tónleikana og þurftu að snúa aftur heim.